Óttast ekki áhrif á önnur evruríki

AFP

Samtök þýskra banka segja litlar líkur á að gríska kreppan muni breiðast út á evrusvæðinu eftir að Grikkir höfnuðu þeim kjörum sem þeim stóðu til boða af hálfu lánardrottna sinna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum og er þar haft eftir yfirmanni þeirra, Michael Kemmer, að þær aðgerðir sem gripið var til í kjölfar fjármálakreppunnar komi í veg fyrir að slíkt gerist. Eins geti Seðlabanki Evrópu brugðist við ef reynt verði að ógna myntbandalaginu. Hann bendir á að önnur evruríki sem hafi þurft á fjárhagsaðstoð að halda hafi brugðist við og komið á efnahagsumbótum. Þau ríki standi mun sterkar að vígi en þau gerðu fyrir þremur eða fjórum árum.

Kemmer bendir á að bankar annarra evruríkja en Grikklands eigi að ráða við það að Grikkir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar og þýskir bankar hafi meðal annars markvisst dregið úr áhættu sinni vegna Grikklands.

Hann segir að með því að kjósa nei hafi gríska þjóðin því miður valið leið sem þeir telja auðveldari en það sé hins vegar ekki raunin því það verði að endurskipuleggja efnahagslega innviði Grikklands eigi landið að ná fram stöðugleika.

Fjármálaráðherrar evruríkjanna vænta þess að Grikkir muni leggja fram nýtt tilboð í viðræðurnar við lánardrottna á morgun. Ráðherrarnir munu hittast á fundi í Brussel klukkan 11 í fyrramálið að íslenskum tíma. 

Verð á hlutabréfum þýskra banka hefur lækkað það sem af er degi en svipaða sögu er að segja af flestum hlutabréfamörkuðum, rauðar tölur eru allsráðandi.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert