Reiddist og skaut mann í höfuðið

Rey Tensing hefur verið ákærður fyrir morð.
Rey Tensing hefur verið ákærður fyrir morð. AFP

Lögreglumaður í Ohio hefur verið ákærður fyrir morð, en hann skaut mann eftir að hafa stöðvað hann við reglubundið umferðareftirlit 19. júlí sl. Ákæruvaldið segir viðbrögð lögregluþjónsins út í hött, en þau hafi verið knúin af reiði.

Lögregluþjónninn, Ray Tensing, var við eftirlitsstörf á lóð Cincinnati-háskóla þegar atvikið átti sér stað, en númeraplötu vantaði á bifreið Sam DuBose. Við rannsókn málsins sagði Tensing að hann hefði skotið DuBose í höfuðið eftir að hann reyndi að aka á brott og að DuBose hefði dregið Tensing með sér, en myndavél sem lögregluþjónninn bar á sér sýndi að hann var aldrei í hættu.

Saksóknarinn Joseph Deters segist vonast til þess að skjót viðbrögð ákæruvaldsins sýni að réttlætinu verði fullnægt í málinu. „Þú munt ekki trúa því hversu fljótt hann dregur upp byssuna og skýtur hann í höfuðið. Það líður kannski sekúnda. Það er ótrúlegt. Og svo fáránlegt,“ segir Deters um viðbrögð Tensing. „Ég held að hann hafi misst stjórn á skapi sínu af því að DuBose vildi ekki yfirgefa bifreið sína.“

Á myndbandinu sést Tensing ganga að svartri bifreið DuBose og biðja hann um að framvísa ökuskírteini og skráningarskírteini. DuBose spyr yfirvegað af hverju hann hafi verið stöðvaður og segir að lokum að hann hafi skilið ökuskírteinið eftir heima.

Á þeim tímapunkti, aðeins tveimur mínútum eftir að samræður mannanna hefjast, teygir DuBose hendina í átt að bíllyklunum og Tensing heyrsti öskra „Stop, stop!“. Á sama tíma sést byssa á lofti og DuBose fellur niður í sæti sínu. Þá sést Tensing hlaupa á eftir bílnum sem rúllar niður eftir götunni.

Að sögn Deters lést DuBose samstundis. Hann segir að Tensing, 25 ára, hefði aldrei átt að fá byssu og skjöld í sínar hendur. Hann segir viðbrögð hans ekki réttlætanleg á nokkurn hátt og hann hafi aldrei vitað lögreglumann framkvæma aðra eins vitleysu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert