Fjármálaráðherra Grikklands bjartsýnn

Euclid Tsakalotos, fjármálaráðherra Grikklands.
Euclid Tsakalotos, fjármálaráðherra Grikklands. AFP

Euclid Tsakalotos, fjármálaráðherra Grikklands, er fullviss um að stjórnvöld í Aþenu nái samkomulagi við lánardrottna landsins um þriðja lánapakkann til handa Grikkjum fyrir 20. ágúst næstkomandi. Þá þurfa Grikkir að standa skil á stórum afborgunum af lánum lánardrottnanna.

Tsakalotos sagði við fjölmiðla eftir fund sinn með fulltrúum lánardrottnanna - Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins - í dag að viðræðurnar gengu „allavega eins vel og við bjuggumst við“.

„Þetta er ekki verra og mögulega aðeins betra en ég átti von á,“ sagði hann.

Grikkir þurfa að greiða Evrópska seðlabankanum 3,4 milljarða evra, sem jafngildir um 501 milljarði króna, 20. ágúst. Til þess að geta gert það verða þeir að fá frekari neyðarlán frá lánardrottnum sínum.

Aðspurður hvort mögulegt væri að ná samkomulagi fyrir þann dag sagði fjármálaráðherrann: „Já. Það hefur aldrei verið sagt, hvorki af okkar hálfu né þeirra, að við munum ekki standast tímamörkin.“

Hann bætti við að ekkert hefði verið rætt við lánardrottnana um mögulegt neyðarlán, eins konar brúarlán, þannig að Grikkir geti standið skil á afborguninni 20. ágúst. Aðeins væri rætt um heildarlánapakka að virði um 86 milljarða evra sem gilda ætti til þriggja ára.

Evruríkin samþykktu í seinasta mánuði að veita Grikkjum sjö milljarða evra brúarlán til að þeir gætu mætt fjármögnunarþörf sinni og greitt af lánum Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert