Sprengja PKK drepur tvo

Mótmælendur í Tyrklandi með spjöld sem á stendur „Friður.“
Mótmælendur í Tyrklandi með spjöld sem á stendur „Friður.“ AFP

Tveir hermenn létust í suðausturhluta Tyrklands þegar jarðsprengja sprakk. Talið er að sprengjunni hafi verið fjarstýrt af liðsmönnum kúrdíska verkamannaflokksins PKK.

Árásin átti sér stað þegar bílalest tyrkneska hersins var á leið um héraðið Sirnak sem landamæri á að Írak og Sýrlandi. Fréttaveita AFP greinir frá því að skotbardagi braust út milli tyrkneskra hermanna og liðsmanna PKK eftir sprenginguna.

Hermálayfirvöld í Tyrklandi hafa staðfest við AFP að tveir hermenn hafi látið lífið á vettvangi. Þriðji maðurinn hefur verið fluttur á sjúkrahús. Nánari upplýsingar um líðan hans liggja ekki fyrir, en talið er að hann sé nokkuð særður eftir árásina.

Liðsmenn PKK hafa heldur betur sótt í sig veðrið að undanförnu og hefur árásum þeirra á hersveitir Tyrklands fjölgað mjög síðastliðnar tvær vikur. Á sama tíma heldur flugher Tyrklands úti loftárásum á skotmörk í norðurhluta Íraks. Beinast árásirnar gegn liðsmönnum Ríkis íslams og sveitum kúrda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert