Atvinnuleysi lækkar á evrusvæðinu

Í Grikklandi er atvinnuleysi enn hæst á evrusvæðinu, eða 25%. …
Í Grikklandi er atvinnuleysi enn hæst á evrusvæðinu, eða 25%. Atvinnuleysi ungs fólks er þó áfram yfir 50%. AFP

Atvinnuleysi á evrusvæðinu fór niður í 10,9% í júlí og lækkaði um 0,2 prósentustig. Hefur atvinnuleysi á svæðinu ekki verið lægra í þrjú og hálft ár og hafa þessar nýju tölur ýtt undir vonir um efnahagslegan bata meðal landanna 19 sem eru á bak við myntsamstarfið.

Þetta er í fyrsta skiptið sem atvinnuleysi á evrusvæðinu fer undir 11% síðan í febrúar 2012. Það er hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat sem tekur tölurnar saman.

Atvinnuleysi meðal ungs fólks er þó enn þá mjög hátt, en í júlí mældist það 21,9%.

Mikill munur er á milli ríkja varðandi atvinnustig, en sérfræðingar telja að tölurnar muni ýta undir vonir fólks um að evruríkin stígi upp úr langvinnum erfiðleikum eftir skuldakrísuna.

Hagfræðingar hafa þó líka bent á að þessar jákvæðu fréttir komi eftir slakan annan ársfjórðung og lækkunin sé aðeins lítilvæg.

Hæsta atvinnuleysið er í Grikklandi, en þar voru 25% atvinnulausir í júlí, samanborið við 25,6% einum mánuði áður. Atvinnuleysi ungs fólks er þar 51,8%, en á Spáni er sú tala 48,6%, en þessi lönd hafa bæði átt í miklum vandræðum síðan skuldakrísa skall á.

Þýskaland var með lægsta atvinnuleysið, en þar voru tölur óbreyttar milli mánaða, 4,7%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert