Á 237 kílómetra hraða í Peking

Væntanlega hefur umferðin verið talsvert minni þegar ökumaðurinn keyrði á …
Væntanlega hefur umferðin verið talsvert minni þegar ökumaðurinn keyrði á 237 kílómetra hraða.

Lögreglan í Peking í Kína hefur handtekið mótorhjólamann sem þaut um eina af aðalgötum borgarinnar á 237 kílómetra hraða. Maðurinn tók atvikið upp og dreifði um netið þar sem það varð strax meðal vinsælasta efnis á kínverskum samskiptamiðlum.

Maðurinn, sem lögreglan hefur aðeins nafngreint sem Peng, náði þessum mikla hraða í lok ágúst á vegi sem er þekktur sem hringvegur tvö.

Aksturinn tók tæplega 14 mínútur, en meira en 220 þúsund kínverskir notendur horfðu á myndskeiðið sem sýndi hraðaksturinn á kínverskri myndabandasíðu. Lögreglunni var aftur á móti ekki skemmt og handtók hinn 30 ára Peng í héraðinu Guangxi og sendi hann aftur til Peking.

Ofsaakstur er vandamál í borginni samkvæmt lögreglu, en nýlega voru tveir atvinnulausir menn handteknir eftir að hafa klesst Lamborghini og Ferrari sportbíla eftir að þeir settu á svið atriði úr Fast and the Furious kvikmyndunum. Voru þeir dæmdir í fangelsi í 5 mánuði og sektaðir fyrir glæfraaksturinn.

Þá var annar Ferrari bíll klessukeyrður í borginni árið 2012 og lést ökumaður hans. Var hann sonur Ling Jihua, nánum samstarfsmanni fyrrum forseta landsins, en í bílnum voru tvær konur sem slösuðust. Önnur þeirra var nakin. Hafa slys sem þessi beint athygli að spillingu og glæsilegum lifnaðarháttum hátt settra opinberra starfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert