Mannskæð flóð í Frakklandi

„Bílar runnu út í sjó,“ segir Davis Lisnard, borgarstjóri Cannes …
„Bílar runnu út í sjó,“ segir Davis Lisnard, borgarstjóri Cannes í viðtali við AFP fréttaveituna. AFP

Tíu manns eru látnir og sex saknað eftir að ofsafenginn stormur og flóð geisuðu á frönsku rívíerunni í nótt.

Þrír létust er flóðið hafnaði á elliheimili í Biot sem er nálægt Anitbes og þrír drukknuðu fastir inn í bíl sínum vegna vatns í Vallauris-Golfe-Juan göngunum. Þá voru einnig tilkynnt banaslys í Antibes og Cannes.

Björgunarsveitir í Mandelieu-la-Napoule leita nú fólks sem er saknað í neðanjarðar bílastæðahúsum.

Flóðin runnu í gegnum Cannes, Nice og Antibes og fylltu götur þriggja glæsilegustu borga Frakklands af vatni.

„Bílar runnu út í sjó,“ segir Davis Lisnard, borgarstjóri Cannes í viðtali við AFP fréttaveituna. Þá segir hann vatnið hafa rifið tré upp með rótum í stærstu götum borgarinnar. Borgin hefur sett upp neyðarskýli fyrir 120 manns.  

Francois Hollande, forseti Frakklands, ætlar sér að heimsækja svæðið en hann hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann hrósar þeim sem hafa komið að björgunaraðgerðum fyrir vel unnin störf og sendi samúðarkveðjur frá þjóðinni til þeirra sem eiga um sárt að binda. 

Um 27.000 heimili eru án rafmagns og þar af eru um 14.000 í Cannes. Þá eru um 500 manns strandglópar á flugvellinum í Nice og lestarkerfið á svæðinu lamað.

Að sögn veðurfræðinga er versta veðrið yfirstaðið í Frakklandi og stormurinn færir sig nú yfir á strendur Ítalíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert