Rússar ferðist ekki til Tyrklands

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ítrekaði í dag tilmæli frá utanríkisráðuneyti landsins til rússneskra ríkisborgara um að ferðast ekki til Tyrklands í kjölfar þess að tyrknesk orrustuþota grandaði rússneskri herþotu í gær við landamæri Tyrklands að Sýrlandi.

„Þetta er nauðsynleg ráðstöfun eftir eins hörmulegan atburð og eyðileggingu einnar af þotum okkar og duða eins af flugmönnum okkar,“ sagði Pútín í sjónvarpsviðtali samkvæmt frétt AFP. Rússnesk stjórnvöld hafa í dag lagt áherslu á að þau hafi engan áhuga á því að lenda í átökum við Tyrki vegna málsins. Tyrkir hafa að sama skapi sagst vilja forðast átök við Rússa.

„Við höfum engin áform um að fara í stríð við Turki. Afstaða okkar til tyrknesku þjóðarinnar hefur ekki breyst,“ sagði Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, við blaðamenn í dag eftir fund með tyrkneskum starfsbróður sínum. Hins vegar myndu ráðamenn í Moskvu endurskoða með alvarlegum hætti samskipti sín við Tyrki í kjölfar málsins.

Vladimír Putín, forseti Rússlands.
Vladimír Putín, forseti Rússlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert