Túrkmenar settu heimsmet í keðjusöng

Tjaldið sem sungið var í þegar heimsmetið var slegið.
Tjaldið sem sungið var í þegar heimsmetið var slegið. AFP

Heimsmet var slegið í síðustu viku er kór 4.166 manna í Túrkmenistan keðjusöng sálm eftir forseta landsins, Gurbanguly Berdymukhamedov. 

Sálmurinn heitir „Áfram, aðeins áfram, mín kæra þjóð“ og hefur flutningurinn nú verið færður í heimsmetabók Guinness.

„Ég varð vitni að mikilli föðurlandsást er Túrkmenar sungu í keðjusöng sálm eftir þjóðhöfðingja sinn,“ segir Seyda Subasi, fulltrúi heimsmetabókar Guinness.

Á meðan kórinn söng var sýnd á risaskjá myndband af forsetanum Berdymukhamedov, að leika á hljómborð og syngja.

Sálmurinn var fluttur inni í risastóru tjaldi, hefðbundnu hýbýli fólks á þessum slóðum. Þetta var þó mun stærra en gerist og gengur, það var 35 metra hátt og 70 metrar í þvermál. 

Fyrra heimsmet átti tækirisinn Google en 3.798 starfsmenn þess sungu lagið Happy í keðjusöng í Dublin í september. 

Berdymukhamedov settist í forsetastól árið 2006 og tók þá við af „föður Túrkmena“, Saparmurat Niyazov.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert