Kastaði krókódíl inn í bílalúgu

Joshua James.
Joshua James. ljósmynd/Skjáskot af vef The Washington Post

Yfirvöld í Flórída hafa tekið höndum Joshua James sem ákærður er fyrir að hafa hent lifandi krókódíl í gegnum bílalúgu á veitingastað.

Atvikið átti sér stað á veitingastaðnum Wendy‘s þann 11. október síðastliðinn. James hefur nú fengið á sig þrjá ákærur vegna málsins. Í fyrsta lagi er hann ákærður fyrir árás með morðvopni, í öðru lagi er hann ákærður fyrir að vera  með krókódíl í vörslum sínum og í þriðja lagi er hann ákærður fyrir þjófnað. Hann situr nú í varðahaldi.

Klukkan 01:30 þann 11. október síðastliðinn átti atvikið sér stað. Í öryggismyndavélum af staðnum sést James koma keyrandi að bílalúgunni og panta sér stóran gosdrykk. Á meðan að starfsmaður staðarins sneri sér í átt að kassanum náði James í krókódílinn og kastaði honum í gengum bílalúguna. Dýrið var rúmur meter á lengd.

Skipað að halda sig fjarri Wendy's

Á myndum af atvikinu sést krókódíllinn liggjandi flatur á gólfi staðarins. Þegar lögreglunni bar að var hafist handa við að binda saman gin dýrsins til þess að tryggja öryggi viðstaddra. Síðan var farið með dýrið út af staðnum og því sleppt út í skurð.

James hefur játað á sig sök og segist hafa tekið krókódílinn höndum af veginum á leið sinni á Wendy‘s. Dómstólar hafa nú skipað honum að halda sig fjarri öllum Wendys stöðum, hann má ekki hafa í fórum sínum vopn og þarf að gangast undir mat á geðheilsu sinni. Þá hefur honum einnig verið bannað að umgangast dýr fyrir utan hund móður sinnar.

Á vef The Washington Post lýsa foreldar James honum sem miklum útivistarmanni sem hafi gaman af því að hrekkja aðra. Þau segja hann hafa þekkt starfsmanninn sem að hrekkurinn hafi beinst að. „Þetta var bara heimskulegur hrekkur sem hefur nú breyst í þetta,“ sagði móðir hans, Linda James,  í viðtali við sjónvarpsstöðina WPTV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert