Úr hverjum er lífsýnið?

Salah Abdeslam, sem er til hægri á myndinni, er á …
Salah Abdeslam, sem er til hægri á myndinni, er á flótta eftir að hafa tekið þátt í hryðjuverkaárásum í París í nóvember. Abdelhamid Abaaoud, sem er til vinstri, er sagður höfuðpaurinn í hryðjuverkaárásunum. AFP

Rannsókn á hryðjuverkunum í París í nóvember tók nýja stefnu í dag þegar fréttir bárust um að lífsýni sem fannst á sjálfsvígssprengjubelti sem hafði verið hent í ruslafötu væri ekki úr Salah Abdeslam, sem er á flótta, líkt og talið var.

Allt þar til nú hefur verið talið að lífsýnið væri úr Abdeslam en beltið fannst tíu dögum eftir hryðjuverkin í 13. nóvember sem kostuðu 130 manns lífið. Sprengjubeltið fannst í ruslafötu í Montrouge hverfinu, sem er úthverfi Parísar.

Talið var að Abdeslam hafi fengið bakþanka um hlutverk sitt í árásinni og ákveðið að láta sig hverfa og flýja aftur til Brussel. Gögn úr farsíma Abdeslam sýna að hann var í Chatillon, skammt frá Montrouge kvöldið sem árásin var gerð. Skömmu síðar komu tveir vinir hans á bíl frá Brussel til þess að sækja hann og fóru þeir saman til Brussel.

Síðan þá hefur hans verið leitað út um alla Evrópu en þeir sem koma að rannsókn árásarinnar telja að Abdeslam hafi verið einn þeirra sem skipulögðu árásina.

En í frétt BFM í dag kemur fram að lífsýnin sem náðust úr sprengjubeltinu séu ekki úr Abdeslam og tilheyri einhverri ókunnugri manneskju sem lögregla hefur ekki enn borið kennsl á. Lífsýni úr sömu manneskju fundust einnig í einu þeirra húsa sem árásarmennirnir notuðu í Belgíu. Ein tilgátan sem er uppi núna er að lífsýnið sé úr þeim sem bjó til sprengjurnar sem notaðar voru í árásinni. Lífsýni úr fleirum fundust á vestinu. En þau eru úr tveimur árásarmannanna sem sprengdu sig upp árásarkvöldið, þeir Brahim Abdeslam og Bilal Hadfi.

Sjónvarpsfrétt BFM

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert