Vilja banna íslömsk tákn

Jörg Meuthen, varaformaður AfD, í ræðustól flokksþingsins.
Jörg Meuthen, varaformaður AfD, í ræðustól flokksþingsins. AFP

Þýski stjórnmálaflokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) hyggst taka upp stefnuskrá á flokksþingi sínu um helgina þar sem kallað verður eftir ströngum reglum um innflytjendur og þá sem aðhyllast íslam. Skoðanakannanir sýna að flokkurinn sé þriðji stærsti flokkur landsins.

Fram kemur í frétt AFP að AfD hafi tekið harða afstöðu gegn stefnu þýskra stjórnvalda í málefnum flóttamanna og hælisleitenda og að forystumenn hans hafi lýst því yfir að „íslam sé ekki hluti Þýskalands.“ Búist er við að samþykkt verði á flokksþinginu í Stuttgart að banna íslömsk tákn. þar með taldar moskur, bænaköll múslima og að konur hylji algerlega andlit sín.

Flokkurinn lýsir sér sem þjóðernissinnuðum íhaldsflokki en reiknað er með að samþykkt verði einnig stefna þar sem lýst er efasemdum um loftlagsbreytingar, lögð áhersla á hefðbundin fjölskyldugildi, kallað eftir herskyldu á nýjan leik og að sagt verði skilið við evruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert