Næsti borgarstjóri London múslimi

Sadiq Khan, frambjóðandi Verkamannaflokksins, með stuðningsmönnum sínum.
Sadiq Khan, frambjóðandi Verkamannaflokksins, með stuðningsmönnum sínum. AFP

Frambjóðandi Verkamannaflokksins, Sadiq Khan, er með afgerandi forskot í síðustu skoðanakönnunum sem birtar verða fyrir borgarstjórakosningar í London sem fara fram á morgun. Nái Khan kjöri verður hann fyrsti músliminn til að leiða höfuðborg Evrópusambandsríkis.

Kannanir sýna að Khan hefur allt að fjórtán prósentustiga forskot á milljarðamæringinn Zac Goldsmith sem er fulltrúi Íhaldsflokksins. Tíu aðrir frambjóðendur eru í boði en enginn þeirra á möguleika á að taka við af íhaldsmanninum Boris Johnson sem borgarstjóri.

Khan hefur haldið sig fjarri deilum um fordóma gegn gyðingum innan Verkamannaflokksins sem geisað hafa undanfarna daga og varið sig fyrir árásum Goldsmith sem hefur sakað hann um að fordæma ekki íslamska öfgamenn.

Kosningabaráttan hefur verið hörð á milli Khan, sem er 45 ára gamall sonur pakistanskra innflytjenda, og Goldsmith, 41 árs gömlum syni auðjöfursins James Goldsmith heitins. Khan hefur ítrekað verið sakaður um að styðja íslamska öfgamenn en hann hefur kallað þær ásakanir rógburð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert