Loftbelgur hrapar með 16 manns

Loftbelgurinn hrapaði niður á milli tveggja rafmagnslína. Talið er að …
Loftbelgurinn hrapaði niður á milli tveggja rafmagnslína. Talið er að allir þeir sextán sem um borð voru séu látnir.

Loftbelgur með 16 manns innanborðs hrapaði í Texas í Bandaríkjunum í dag. Kviknað hafði í loftbelgnum sem lenti í nágrenni bæjarins Lockhart, suður af Austin.

Að sögn fréttavefjar BBC liggur enn ekki fyrir hvort mannskaði hafi orðið í slysinu.

Bandaríska loftferðaeftirlitið segir loftbelginn hafa hrapað til jarðar um hálfáttaleytið í morgun að staðartíma.

Fulltrúar loftferðaeftirlitsins eru á leið á slysstað og mun flugslysanefnd taka við rannsókninni að lokinni frumathugun.

Uppfært 17:19

Daniel Law, lögreglustjóri Caldwell-sýslu, segir að svo virðist sem engir þeirra sem voru um borð í loftbelgnum hafi lifað slysið af, en loftbelgurinn var í ljósum logum þegar sjúkraflutningamenn komu á staðinn. 

Myndbönd og myndir sem birt hafa verið í staðarfjölmiðlum sýna að loftbelgurinn hrapaði niður milli rafmagnslína. Ekki er þó enn vitað hvað olli slysinu.

Fréttamaður frá Fox-sjónvarpsstöðinni, sem er á vettvangi, segir að svo virðist sem allt samband hafi slitnað við loftbelginn þegar hann var hálfnaður með klukkustundar langa ferð sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert