Þurfti að sanna að hann væri ekki höfundurinn

Lögfræðingurinn William Zieske og skjólstæðingur hans Robert Fletcher.
Lögfræðingurinn William Zieske og skjólstæðingur hans Robert Fletcher. AFP

Tímamótadómur fyrir listaverkamarkaðinn féll í héraðsdómi í Chicago í gær er bandarískur dómari dæmdi listamanni í hag sem hafði neitað því að hafa málað málverk sem honum var eignað. 

Myndlistarmaðurinn, Peter Doig, neitaði að vera höfundur landslagsmálverks sem kanadískur fangavörður, Robert Fletcher, hefur átt í nokkra áratugi.

Fletcher höfðaði skaðabótamál á hendur Doig fyrir að neita því að málverkið væri eftir hann. Með neitun myndlistarmannsins, sem er heimsþekktur, lækkaði verðgildi verksins umtalsvert.

Dómarinn, Gary Feinerman, dæmdi í gær að það væru afdráttarlausar sannanir fyrir því að Doig hafi ekki málað myndina og það sé réttur myndlistarmannsins að verja nafn sitt og verk.

Málið nær aftur til áttunda áratugar síðustu aldar þegar Fletcher, sem nú er kominn á eftirlaun, fylgdist með fanga, Peter Doige, sem afplánaði dóm fyrir fíkniefnalagabrot. Doige naut leiðsagnar í myndlist í fangelsinu. 

Fletcher segir að hann minnist þess hversu hrifinn hann hafi verið af einu verka Doiges af eyðimörk. Hann keypti verkið á 100 Bandaríkjadali, 11.700 krónur, í þeirri von að Doige myndi halda sig fjarri eiturlyfjasölu og snúa sér alfarið að myndlist.

Áratugum síðar, þegar vinur Fletchers sá málverkið hangandi uppi á vegg á heimili hans, sagði hann að verkið væri án efa eftir bandaríska listamanninn Peter Doig en verk hans hafa selst á 10 milljónir Bandaríkjadala á uppboðum.

Fletcher ræddi við listaverkasala í Chicago, Peter Bartlow, sem tók að sér að selja verkið fyrir hann en þá fór í verra: Doig sagði ekkert hæft í sögu Fletchers, hann hafi ekki málað myndina, aldrei hitt Fletcher og þaðan af síður verið fangi í Kanada.

Lögfræðingar Doigs bentu á að til væri kanadískur maður sem héti Peter Doige. Hann væri smiður og áhugamálari. Hann lést árið 2012 en ævisögu hans þykir svipa mjög til sögu Fletchers.

Feinerman dómari komst að þeirri niðurstöðu að það sé réttur myndlistarmanns að tryggja það að verk séu ekki seld undir hans nafni og hann hafi rétt á að verja heiður sinn sem myndlistarmaður. Það sé hafið yfir allan vafa að Doig hafi ekki málað myndina sem deilan stóð um.

Fletcher og Bartlow hafa ekki tekið ákvörðun um hvort þeir áfrýi dómnum en þeir eru sannfærðir um að verkið sé eftir Doig þrátt fyrir að hann neiti því og niðurstöðu dómarans.

Málið hefur vakið mikla athygli í listaverkaheiminum og telja sérfræðingar að sú hætta sé fyrir hendi að auðugir eigendur listaverka gætu höfðað mál gegn listamönnum sem neiti því að vera höfundar verka sem þeim eru eignuð. Þeir þurfi sjálfir að verja heiður sinn, það er að sanna að þeir séu ekki höfundar verksins.

Amy Whitaker, myndlistarprófessor við New York University, fagnar niðurstöðu dómsins í gær. Það eigi ekki að vera verk listamannsins  að tryggja eða að þurfa að sannreyna verk sín. 

En skaðinn er skeður því málið fékk að fara fyrir dóm, segir Michael Bennett, prófessor við Arizona State University og lögfræðilegur ráðgjafi í listaverkaheiminum.

Peter Doig.
Peter Doig. Af vef Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert