Sextán látnir og 53 særðir

Sextán létust þegar árásarmenn réðust inn í American University of Afghanistan í Kabúl en árásin stóð yfir í tíu tíma. Sprengingar og skothvellir heyrðust við skólann þegar vígamennirnir létu til skarar skríða og nemendur báðu um aðstoð á samfélagsmiðlum.

Frétt mbl.is: Einn látinn og 26 særðir

Enginn hefur lýst árásinni á hendur sér en talibanar hafa verið í sókn gegn stjórnarhernum sl. misseri. Samkvæmt upplýsingum frá afganska forsetaembættinu var árásin skipulögð frá Pakistan, sem hefur oft verið sakað um að halda hlífiskildi yfir talibönum.

„Sextán einstaklingar, þar af átta nemendur, voru drepnir og 53 særðir,“ sagði Waheed Majroh, talsmaður heilbrigðisráðuneytisins, í samtali við AFP. Hann sagði suma hinna særðu í lífshættu.

Innanríkisráðuneytið segir að lögreglumenn og öryggisverðir séu meðal hinna látnu.

Hundruðum nemenda var bjargað úr skólabyggingunni af sérsveitum lögreglu. Árásin hófst þegar bílsprengja sprakk við eitt hliða háskólalóðarinnar en í kjölfarið réðust tveir árásarmannanna til atlögu.

Árásin átti sér stað seinnipart dags, þegar fjölmennt var í skólanum.

Yfirvöld hafa neitað að svara því hvort gíslar hafi verið teknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert