Tísti um morð og banaði svo manni

Zachary Penton.
Zachary Penton.

„Ég verð að flytja út úr íbúðinni minni áður en ég myrði herbergisfélaga mína með hrottalegum hætti.“

Þetta skrifaði 21 árs gamli Zachary Penton á Twitter-síðu sína, tveimur dögum áður en hann skaut 41 árs gamlan herbergisfélaga sinn til bana á heimili þeirra í Arizona í Bandaríkjunum. 

Penton hringdi á lögregluna sjálfur á sunnudag eftir að hafa skotið manninn og játaði að hafa orðið honum að bana. Hann var handtekinn og er nú í haldi lögreglu.

Ungi maðurinn hafði lengi notað Twitter sem vettvang til að tjá sig um óhugnanlegar langanir sínar til að myrða einhvern. Í febrúar 2013 skrifaði hann: „Hefur ykkur einhvern tímann langað til að drepa einhvern?“ og tveimur dögum seinna skrifaði hann: „Án gríns, förum og drepum einhvern.“

Í júní sl. sagði hann svo frá því á samfélagsmiðlinum að hann hefði eignast byssu. Stuttu síðar spurði hann hvort einhver vildi koma út að skjóta með honum. 

Eins og áður sagði hefur Penton játað að hafa banað herbergisfélaga sínum, en segir að það hafi verið í sjálfsvörn. Herbergisfélaginn hafi beðið hann að flytja út, og í kjölfarið hafi þeir  rifist. Penton hafi óttast um öryggi sitt og því skotið manninn til bana. 

Verjendur mannsins segja hann ekki hafa verið að tala af fullri alvöru á Twitter-síðu sinni, heldur hafi hann aðeins verið að grínast. Því eigi ekki að taka það sem hann sagði þar alvarlega, og sönnunargögn í málinu muni sýna fram á að hann hafi skotið herbergisfélaga sinn í sjálfsvörn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert