Lögreglan taki upp alla tónleika

Hassan Rouhani, forseti Írans, hefur gagnrýnt harðlínumenn sem hatast við …
Hassan Rouhani, forseti Írans, hefur gagnrýnt harðlínumenn sem hatast við tónleikahald í landinu. AFP

Saksóknari í Teheran, höfuðborg Írans, hefur lagt til hertar reglur um tónleikahald í borginni. Samkvæmt þeim á lögreglan að taka upp alla viðburði og menningarmála- og héraðsyfirvöld ættu að taka ríkari ábyrgð á efni þeirra og hegðun tónleikagesta. Tónleikar hafa verið bannaðir með öllu í næststærstu borg Írans.

Fjölda tónleika hefur verið aflýst á síðustu stundu vegna þrýstings frá harðlínumönnum og trúarleiðtogum undanfarið en hinn frjálslyndari Hassan Rouhani forseti hefur gagnrýnt þá fyrir tilburði sína. Rouhani sækist eftir endurkjöri í kosningum á næsta ári en hann hefur talað fyrir auknu frelsi Írana. Klerkarnir eru hins vegar staðráðnir í að stöðva það sem þeir telja innreið vestræns siðleysis. Útspil saksóknarans í Teheran er sagt nýjasta útspilið í átökum umbótasinna og harðlínumanna.

Fyrr í þessum mánuði krafðist trúarleiðtogi í Mashhad, næststærstu borg Írans, þess að tónleikar yrðu bannaðir með öllu vegna siðspillingar tónleikagesta. Þrátt fyrir að engir tónleikar hafi verið haldnir í borginni í ellefu ár féllst menningarmálaráðherrann á bannið. Sætti hann þá gagnrýni forsetans.

Alls skrifuðu 5.000 fulltrúar tónlistariðnaðarins í Íran undir opið bréf sem birtist í fjölmiðlum umbótasinna þar sem þeir lýstu banninu í Mashhad sem „stórslysi sem fórni tónlistinni í dag en menningu og orðspori landsins á morgun“.

Einn þekktasti söngvari Írans, Shahram Nazeri, þurfti næstum því að aflýsa tónleikum með syni sínum Hafez í borginni Yazd í síðustu viku. Hópur trúmanna vildi að tónleikarnir yrðu blásnir af en feðgarnir ákváðu að halda þá engu að síður. Mótmælendur reyndu hins vegar að spilla tónleikunum. Talsmaður feðganna segir að heyra hafi mátt í hátölurum fyrir utan tónleikastaðinn þar sem mótmælendur fóru með bænir meðan á tónleikunum stóð.

Íran býr að ríkulegri hefð fyrir ljóðlist og tónlist og því hafa trúarleiðtogar þar tekið mun vægar á listum en tíðkast í öðrum löndum múslima. Engu að síður þarf menningarmálaráðuneyti landsins að samþykkja alla tónlist og texta áður en plötur eru gefnar út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert