Aðstoða við leitina að Emilie

Emilie Meng.
Emilie Meng. Facebook/Missing People Denmark

Rúmlega sex vikur eru liðnar frá því að síðast sást til hinnar átján ára Emilie Meng. Viðamikil leit að henni í Danmörku hefur engan árangur borið. Hún kvaddi vini sína síðla nætur í júlí og ákvað að ganga heim frá lestarstöðinni en ekkert er vitað um ferðir hennar eftir það.

Síðustu þrjár vikurnar hefur fyrirtækið AFA JCDecaux, sem sér meðal annars um auglýsingar á skiltum á lestarstöðvum landsins, birt mynd af henni víða í Danmörku, foreldrum hennar að kostnaðarlausu.

Karsten Rask Mikkelsen, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins í Danmörku, sagði í samtali við Ekstra Bladet að á þessum tíma árs væri minna um auglýsingar og því hefði ekki verið erfið ákvörðun að leggja fjölskyldu Emilie lið með þessum hætti. Reglulega birtist mynd af henni á stöðum þar sem hátt í 400 þúsund manns fara um daglega ásamt texta sem greinir frá því að stúlkunnar sé saknað.

Emile hefur ekki sent frá sér skilaboð eða notað greiðslukort eftir að síðast sást til hennar.

Frétt mbl.is: Danska stúlkan enn ófundin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert