Bjó með líki sonarins í 20 ár

Gamla konan bjó í Brooklyn í gömlu múrsteinshúsi. Búið er …
Gamla konan bjó í Brooklyn í gömlu múrsteinshúsi. Búið er að tæma húsið. AFP

Öldruð kona í Brooklyn var óafvitandi með lík sonar síns í húsi sínu í tvo áratugi. Konan er blind og hamstrari (e. hoarder) svo íbúð hennar var yfirfull af ýmsum hlutum og rusli. Talið er að konan hafi ekki vitað af því að líkamsleifar sonarins voru í húsinu.

The Telegraph fjallar um málið og að gamla konan hafi nýlega verið lögð inn á sjúkrahús. Í kjölfarið hafi mágkona hennar farið á heimili hennar og uppgötvað beinagrind sonarins.

Mágkonan kom að beinagrindinni „mjög heillegri“ í svefnherbergi í húsinu. Herbergið var yfirfullt af rusli. Beinagrindin var klædd í gallabuxur, sokka og skyrtu og lá á þunnri dýnu á gólfinu.

Lögreglan segir að svo mikið rusl hafi verið í herberginu og íbúðinni allri að engu hefði verið líkara en að ruslabíll hefði reglulega verið tæmdur þar inni.

Þá var lyktin af rotnandi matvælum óbærileg. 

Gamla konan var yfirheyrð og sagðist hún einfaldlega hafa talið að sonurinn hefði flutt að heiman. Hún hefur nú verið flutt á heimili fyrir aldraða. 

Lögreglan telur að sonurinn hafi látist af náttúrulegum orsökum. 

Að hamstra rusli líkt og gamla konan gerði er afleiðing alvarlegs geðsjúkdóms. Fólk sem gerir slíkt hefur oft orðið fyrir miklu áfalli í lífinu en gamla konan er sögð bæði hafa misst eiginmann sinn og annan son fyrir mörgum árum. Hamstrarar eru oft félagslega einangraðir. Í þessu tilfelli virðist engir ættingjar hafa sinnt gömlu konunni fyrr en hún loksins veiktist og var flutt á sjúkrahús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert