Úr ljónaveiðimönnum í verndara

Maasai-stríðsmenn senda GPS skilaboð heim í búðir til að gefa …
Maasai-stríðsmenn senda GPS skilaboð heim í búðir til að gefa til kynna staðsetningu ljónynja sem þeir hafa verið á eftir. AFP

Á heimaslóðum Maasai-þjóðarinnar í suðurhluta Kenía hafa ungir menn látið af fornum siðum og tekið sér hlutverk verndarans í stað þess að gerast veiðimenn. Um er að ræða aðgerðir sem miða að því að standa vörð um ljónastofn landsins en þeim er einnig ætlað að hjálpa samfélögum á svæðinu.

Meðal piltanna er Leiyio Lengete, stríðsmanns eða „Moran“, sem ber skarlatrautt klæði á öxlunum, blátt klæði um mjaðmirnar og fjölda marglita perlubanda á upphandleggjunum, ökklunum og um hálsinn.

Lengete ber einnig stóra málmeyrnalokka og perlað hárband í síðu, fléttuðu hárinu en í stað hefðbundins spjóts, heldur hann á GPS-tæki.

Það eru samtökin „Lion Guardians“ sem standa að verkefninu sem Lengete starfar fyrir en þau hafa komið upp búðum á Selenkay-verndarsvæðinu, ekki langt frá Kilimanjaro, hæsta fjalli Afríku í nágrannaríkinu Tansaníu.

Í daga hafa Maasai „verndararnir“ lagt fótgangandi af stað til að leita að þremur ljónynjum sem laumuðust inn í búðirnar kvöldið áður.

Ummerki um þær er erfitt að finna á þurru kjarrlendinu en mennirnir komast engu að síður fljótt að þeirri niðurstöðu að þær hafa skipt liði til að leita að fæði.

Tveimur klukkustundum síðar gefur einn hinna fjóru verndara hinum merki; ljónynjurnar þrjár eru skammt undan.

Þessi ljónynja ber radíósendi um hálsinn.
Þessi ljónynja ber radíósendi um hálsinn. AFP

Týnt búfé, týnd börn

Í fyrra lífi hefðu mennirnir drepið dýrin samkvæmt siðvenju sem kallast „olamayio“ og þar með sannað hugrekki sitt og unnið upphefð innan Maasai-samfélagsins.

Ljón voru einnig veidd í hefndarskyni vegna árása sinna á búfénað.

En fyrir Lengete og aðra unga Moran eru þeir dagar liðnir; þegar ljónynjurnar eru fundnar og upplýsingarnar um staðsetningu þeirra hafa verið sendar heim í búðirnar, mætir bifreið á vettvang með Stephanie Dolrenry innanborðs.

Dolrenry er einn stofnanda og framkvæmdastjóra verkefnisins.

Hún notar bæði forna þekkingu Maasai-fólksins og vísindalegar aðferðir til að skrásetja og rannsaka hegðun ljónanna, sem hafa snúið aftur á hið 3.684 ferkílómetra svæði sem er undir eftirliti verkefnisins.

„Verkefnið snýst ekki bara um ljónin. Allt sem við gerum snýst um samfélagið,“ segir Dolrenry í samtali við AFP.

„Verndararnir verja miklum tíma í að leita uppi týnt búfé, týnda hirðingja, jafnvel lítil börn sem hafa týnst. Verndararnir eru þarna, þeir geta farið og leitað, þeir þekkja svæðið,“ segir Bandaríkjamaðurinn.

Stephanie Dolrenry, einn framkvæmdastjóra verkefnisins.
Stephanie Dolrenry, einn framkvæmdastjóra verkefnisins. AFP

Að sögn Dolrenry fundu verndararnir búfénað að verðmæti milljón dala í fyrra. Störf þeirra hafa hafið „stríðsmennina“ til virðingar innan samfélagsins en það að þeir eru daglega í nálægð við ljónin viðheldur anda hinna fornu siðvenju.

Þegar kýr er drepinn grípa ungu mennirnir inn í og freista þess að sannfæra bændur um að hefna sín ekki á stóru köttunum. Til þess nota þeir m.a. þau rök að þeirra eigin störf, sem snúa m.a. að því að endurheimta týnt búfé, séu í húfi auk fjölda annarra starfa sem Maasai-fólkið sinnir fyrir verkefnið.

Ljónastofninn hefur þegar notið góðs af verkefninu, en fjöldi kattanna á svæðinu hefur fjórfaldast á tímabilinu 2007-2016 og stendur nú í 150 dýrum.

Á „veiðum“.
Á „veiðum“. AFP

Úr veiðimanni í verndara

Annað dýralíf á svæðinu hefur einnig notið góðs; vísundar hafa snúið aftur eftir áralanga fjarveru, fílahjarðir fara þar um og tegundir sem finnast varla annars staðar í Kenía, s.s. ákveðnar antílóputegundir og gíraffa-gasellan.

„Lion Guardians“ starfar einnig í Tansaníu, Rúanda og Simbabve en er fjármagnað með fjárframlögum frá Bandaríkjunum. Árlegt rekstarfé Selenkay-verkefnisins nemur um 269.000 evrum.

Þegar því var hrundið úr vör voru verndararnir fimm talsins eru nú eru þeir fleiri en 40. Hver þeirra fær greidd lágmarkslaun, sem nema 108 evrum.

Einn nýjasti verndarinn er Mitiaki Kitasho, sem óskaði eftir starfinu eftir að hann var tvisvar dæmdur í fangelsi, fyrst fyrir að drepa fíl og svo fyrir að drepa ljón.

„Það er engin tegund sem ég hef ekki drepið til að vernda samfélagið og öðlast vinsældir og virðingu,“ segir hann.

En hugrekki nægir ekki lengur til að hafa að bíta og brenna og eftir að hafa verið sleppt úr fangelsi leitaði hann til „Lion Guardians“ eftir starfi.

Nú getur hann haldið áfram að gera það sem hann elskar, á öðrum forsendum; að elta uppi stóra ketti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert