Köttur fannst 600 km frá heimili sínu

Kötturinn á myndinni er fjarskyldur ættingi Sissi.
Kötturinn á myndinni er fjarskyldur ættingi Sissi. AFP

Fjölskylda í borginni St Gallen í Sviss endurheimti á dögunum köttinn sinn sem hún hafði talið að hefði horfið á vit feðra sinna. Kötturinn fannst rúmu ári eftir að hann hvarf, 600 kílómetra frá heimili sínu. Í þýsku borginni Bonn.

Kötturinn, hin 15 ára gamla læða Sissi, hvarf frá heimili sínu í ágúst á síðasta ári. Fjölskyldan leitaði alls staðar að Sissi, sem er heyrnarlaus, en allt fyrir ekki. Þegar vetur gekk í garð gáfu fjölskyldumeðlimir upp vonina.

„Þetta var mjög erfitt fyrir okkur. Mörg tár féllu,“ er haft eftir eigandanum Julika Fitzi. Fjölskyldan varð því furðu lostin þegar kattaathvarf í Bonn hafði samband og tilkynnti henni að Sissi hefði fundist þar í borg.

Borin höfðu verið kennsl á Sissi vegna örmerkingarinnar í henni. Íbúi í Bonn fann Sissi í miðborginni í slæmu ástandi. Hún var þakin í flóm og mjög horuð.

Enginn veit hvernig Sissi tókst að ferðast alla þessa leið til Bonn en Fitzi telur að læðan hafi farið upp í bifreið sem flutt hafi hana þangað.

Það tekur um sex tíma að ferðast á milli borganna og á morgun hyggst fjölskyldan ferðast til Bonn og sækja Sissi. „Við vitum ekkert hvernig hún mun bregðast við þegar hún sér okkur,“ segir Fitzi.

Fjölskyldan hyggst setja nýja ól á Sissi með GPS staðsetningarbúnaði.

Fréttavefurinn Theloca.de greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert