Hundruð meðhöndlaðir við brennisteinseitrun

Hermenn klæðast nú gasgrímum í nágrenni Mósúl eftir að reykur …
Hermenn klæðast nú gasgrímum í nágrenni Mósúl eftir að reykur tók að blása frá brennandi verksmiðjunni í Mishraq. AFP

Hundruð manna sæta nú læknismeðferð í nágrenni Mósúl í Írak, eftir að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams kveiktu í brennisteinsverksmiðju í bænum Mishraq. Íraski stjórnarherinn og bandamenn halda áfram að reyna að ná Mósúl úr höndum vígamanna Ríkis íslams og hafa hermenn sett upp gasgrímur eftir að vindur tók að blása frá brennandi verksmiðjunni.

Fréttavefur BBC hefur eftir talsmönnum Bandaríkjahers að vígamenn Ríkis íslams hafa kveikt í verksmiðjunni fyrir tveimur dögum er þeir flúðu undan áhlaupi hersins. Bandarískir hermenn í vesturhluta Quyyaraha héraðs, þar sem ein helsta miðstöð bandaríska hersins í áhlaupinu á Mósúl er staðsett, settu í dag upp gasgrímur er reyk tók að blása frá verksmiðjunni.

Reuters fréttastofan segir 1.000 manns nú fá læknismeðferð vegna öndunarerfiðleika í kjölfar ertingarinnar sem brennisteinsdíoxíðið veldur.

AFP-fréttastofan hefur eftir Qusay Hamid Kadhem, hershöfðingja í Íraksher, að tveir almennir borgarar hafi þegar dáið vegna brennisteinseitrunar og að margir aðrir hafi særst.

Íraski herinn kom í dag til bæjarins Qaraqosh, sem er rúma 30 km suður af Mósúl sem nú er að stærstum hlut mannlaus,en vígamenn Ríkis íslams hafa víða komið jarðsprengjum fyrir í nágrenni Mósúl. Þá hafa sjálfsvígsmenn úr þeirra röðum einnig staðið fyrir árásum, auk þess sem ökutækjum hlöðnum sprengiefni hefur verið ekið á miklum hraða í átt að hersveitum við víglínuna.

Eldur hefur áður komið upp í verksmiðjunni í Mishraq árið 2003 og logaði hann vikum saman, með þeim afleiðingum að mikið magn brennisteinsdíoxíðs slapp út í andrúmsloftið og olli öndunarerfiðleikum hjá fólki og mengun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert