Mátti bera höfuðslæðu í vinnunni

Konunni var sagt upp fyrir að bera höfuðslæðu í vinnunni.
Konunni var sagt upp fyrir að bera höfuðslæðu í vinnunni. AFP

Svissneskur dómsstóll hefur gert fatahreinsun í landinu að greiða konu, sem sagt var upp fyrir að bera höfuðslæðu í vinnunni, laun aftur í tímann og skaðabætur.

Konan er frá Serbíu. Hún hafði lengi unnið hjá fatahreinsuninni. Hún fór að bera höfuðklút að hætti múslimakvenna og var í kjölfarið rekin.

Héraðsdómsstóll í Bern komst að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að fyrirtækið hefði ekki haft nægt tilefni til að segja konunni upp störfum. 

Í fréttum svissneskra fjölmiðla segir að hér sé á ferðinni eitt fyrsta dómsmál landsins sem tekur á þessu málefni. Konunni var sagt upp í janúar á síðasta ári. Atvinnuveitandi hennar sagði að með því að nota höfuðslæðu bryti hún í bága við hreinlætisreglur fyrirtækisins. Henni var sagt að hætta að nota slæðuna að öðrum kosti yrði henni sagt upp.

Hún bauðst til að þvo slæðuna daglega, eða nota einnota slæðu. Því hafnaði vinnuveitandinn.

Dómsstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að vinnuveitandinn hefði brotið á stjórnarskrárbundnum rétti konunnar. Ekki sé hægt að segja fólki upp fyrir að bera að slæðu nema að það geri viðkomandi starfsmanni ókleift að sinna störfum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert