Fjöldaflótti eiturlyfjasjúklinga úr meðferðarstöð

Vistmenn notuðu prik og slökkviliðstæki til að brjóta sér leið …
Vistmenn notuðu prik og slökkviliðstæki til að brjóta sér leið út úr ríkisreknu meðferðarstöðinni í Dong Nai. Aðstæður þar þykja slæmar og eru rúmlega helmingi fleiri vistaðir þar, en stöðin tekur með góðu móti. AFP

Lögreglan í suðurhluta Víetnam leitar nú rúmlega 200 eiturlyfjasjúklinga sem flúðu úr meðferðarstöð sem þeir höfðu verið skikkaðir til vistar á.

Fréttavefur BBC segir rúmlega 500 af þeim sem dvöldu á meðferðarstöðinni í Dong Nai-héraði hafa notað slökkviliðstæki og prik til að brjótast í gegnum veggi og glugga meðferðarstöðvarinnar í gær.

Um það bil 1.500 vistmenn dvelja í miðstöðinni, sem er sagt vera um helmingi fleiri en stöðin getur hýst með góðu móti. Mannréttindasamtök hafa fordæmt aðstæður í þessari og öðrum ríkisreknum meðferðarstöðvum í nágrenninu og eru fjöldaflóttar sagðir nokkuð algengir.

Víetnamskir fjölmiðlar segja íbúa í héraðinu hafa verið hvatta til að halda sig innan dyra og að læsa dyrum eftir að flóttamennirnir streymdu út á göturnar í gær.

Búið er að ná aftur meirihluta þeirra sem flúðu en að sögn lögreglu eru enn um 200 manns á flótta. Talið er að hluti hópsins hafi tekið sér far með leigubílum á brott úr héraðinu.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa fordæmt aðstæður í ríkisreknum meðferðarstöðvum í Víetnam og saka stjórnvöld um að arðræna vistmenn og nota þá sem vinnuafl.

Stjórnvöld í landinu hafna þessum ásökunum hins vegar alfarið og segja eiturlyfjaneyslu hafa dregist saman vegna þeirra meðferðar sem eiturlyfjasjúklingar fái.

Rúmlega 400 eiturlyfjasjúklingar flúðu meðferðastöð í héraðinu Ba Ria Vung Tau í apríl og árið 2014 flúði svipaður fjöldi frá meðferðarstöð í Hai Phong.

Samkvæmt opinberum tölum eru um 200.000 eiturlyfjasjúklingar í Víetnam og eru um 13.000 þeirra á opinberum meðferðarstöðvum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert