Hjúkrunarkona ákærð fyrir að myrða 8

Kanadíska lögreglan hefur lítið viljað gefa upp um rannsóknina, en …
Kanadíska lögreglan hefur lítið viljað gefa upp um rannsóknina, en útilokar þó ekki að fórnarlömb Wettlaufer eigi eftir að reynast fleiri. Wikipedia

Kanadíska hjúkrunarkonan Elizabeth Tracey Mae Wettlaufer var í dag ákærð í Ontario fyrir morð á átta íbúum tveggja hjúkrunarheimila sem hún starfaði á.

Morðin voru framin á nokkurra ára tímabili og voru fórnarlömbin á aldrinum 75-96 ára. Að sögn lögreglu batt Wettlaufer enda á líf sjö fórnarlamba sinna með banvænum lyfjaskammti.  

Öll voru fórnarlömbin íbúar á hjúkrunarheimilunum Caressant Care í  Woodstock og Meadow Park  í London í Ontario-fylki.

Lee Griffi, talsmaður Caressand Care, sagði Wettlaufer hafa starfað á heimilinu fyrir tveimur og hálfu ári. „Við hörmum sorgina og álagið sem þetta veldur fjölskyldum fórnarlambanna,“ sagði Giffi.

Morðin voru framin á árabilinu 2007-2014, en kanadíska lögreglan hefur lítið vilja gefa upp um rannsóknina, annað en að hún hafi hafist í lok september þegar lögreglunni í Woodstock barst ábending.   

Fréttavefur BBC hefur eftir lögreglunni að ekki sé vitað hvort fórnarlömb Wettlaufer eigi eftir að reynast fleiri, en hjúkrunarkonan starfaði líka á öðrum stofunum. Hefur fólk verið hvatt til að setja sig í samband við lögreglu, búi það yfir upplýsingum sem tengjast málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert