Flestar þingkonur fórnarlömb kynferðislegrar áreitni

Meirihluti þingkvenna þarf að þola niðrandi orð og eru fórnarlömb …
Meirihluti þingkvenna þarf að þola niðrandi orð og eru fórnarlömb kynferðislegrar áreitni í starfi. AFP

Langflestar þingkonur hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða jafnvel mun alvarlegra ofbeldi. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar meðal þingkvenna víðsvegar um heiminn. Rannsóknin er unnin af Alþjóðaþingmannasambandinu (IPU). Þing IPU stendur yfir í Genf í Sviss og er verið að kynna skýrsluna þar. 

Aðeins 55 þingkonur tóku þátt í rannsókninni en þær eru fulltrúar á 39 þjóðþingum víðast hvar um heiminn. Yfir 80% þeirra hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni og öðru andlegu eða líkamlegu ofbeldi.

Skýrslan þykir til marks um hvað stjórnmálakonur alls staðar í heiminum þurfa að þola í starfi sínu. 

Hótað nauðgun í yfir 500 skipti á fjórum dögum

Til að mynda bárust evrópskri þingkonu yfir 500 hótanir um nauðgun á aðeins fjögurra daga tímabili á Twitter. Asísk þingkona greinir frá því að henni hafi borist hótanir um að sonur hennar yrði beittur ofbeldi. Í hótuninni kom fram í hvaða skóla hann var, í hvaða bekk og hversu gamall hann væri.

Af konunum sem tóku þátt í rannsókninni sögu 65,5% að þær hefðu orðið fyrir móðgunum þar sem klúr orð og myndlíkingar voru notuð. Mjög algengt er að starfsbræður niðurlægi þær með orðum sínum, jafnvel í þingsal. 

Nkandu Luo, ráðherra jafnréttismála í Sambíu segir að það sé algengt að konur séu niðurlægðar af körlum á þingi í hennar heimshluta. Hún nefnir sem dæmi þingmann sem lét hafa eftir sér opinberlega að hann hefði viljað fara á þing þar sem allar konurnar væru þar og hann gæti valið úr þá sem hann vildi komast yfir. Fjölmiðlar hafi birt þessi ummæli hans þar sem þau þættu skemmtileg og fyndin. „Svona lítillækka þeir konur,“ segir Luo í viðtali við BBC.

Salma Ataullahjan, öldungadeildarþingmaður frá Kanada, segir að í fyrstu hafi hún ekki séð nokkra ástæðu til þess að taka þátt í rannsókninni enda ætti viðfangsefnið ekki við hana og hennar upplifun í starfi. „Ég sagði, ég er frá Kanada og þarf ekki að taka þátt í þessu,“ segir Ataullahjan í viðtali við BBC.

En þegar hún fór að svara spurningunum rifjaðist ýmislegt upp fyrir henni. Til að mynda herramaður sem hún hafði hitt í starfi. Sá hafði þrýst sér upp að henni og viðhaft um hana orð sem voru niðurlægjandi en hún lét þau sem vind um eyru þjóta á þeim tíma.

En atvikið rifjaðist upp þegar hún svaraði rannsókninni og gerði hún sér grein fyrir að framkoma mannsins var óviðeigandi og jafnvel ógnandi. Ataullahjan segir að í dag sé hún mun meðvitaðri um hvað sé eðlilegt og hvað ekki og hiki ekki við að láta starfsbræður sína vita ef hún er ósátt við orðbragð þeirra gagnvart henni og öðrum konum.

Niðurstaða skýrslunnar er að hættan á að verða fyrir kynferðislegri áreitni, niðurlægingu og ofbeldi fæli margar konur frá því að sinna starfi sínu. Framkvæmdastjóri IPU, Martin Chungong, segir að þetta sé meðal þess sem valdi mestum áhyggjum við lestur skýrslunnar.

„Þingmenn eiga að vera leiðtogar í þjóðfélögum sem þeir starfa í,“ segir Chungong en í dag sé ljóst að konur á þingi eru ekki undanskildar frá niðurlægingu af þessu tagi. „Svo ef elítan er fórnarlamb kynferðislegs ofbeldis - hvað þá um þá sem ekki teljast til forréttindahópa?“ spyr Chungong.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert