Segja allar öryggiskröfur uppfylltar

Deborah Thomas, yfirmaður Ardent Leisure Group sem rekur Dreamworld, ásamt …
Deborah Thomas, yfirmaður Ardent Leisure Group sem rekur Dreamworld, ásamt Neil Balnaves. AFP

Forsvarsmenn ástralska skemmtigarðsins Dreamworld, þar sem fjórar manneskjur létust á þriðjudaginn, segja að allar öryggiskröfur hafi verið uppfylltar. Þeir höfðu í morgun ekki haft samband við syrgjandi ættingja þeirra sem létust. 

Frétt mblis: Fjórir létust í skemmtigarði

Systkinin Kate Goodchild og Luke Dorsett, 32 og 35 ára, drukknuðu þegar sex manna bát þeirra hvolfdi í tæki sem kallast Thunder River Rapids, ásamt sambýlismanni Dorsetts, Roozbeths Araghi, 38 ára.

Auk þeirra lést Cindy Low, 42 ára nýsjálensk kona í slysinu. Drengur og stúlka, 10 og 12 ára, komust lífs af.

Frétt mbl.is: Þrír úr sömu fjölskyldu létust í garðinum

Yfirmaður Dreamworld, lengst til vinstri, minnist fórnarlambanna ásamt starfsfólki sínu.
Yfirmaður Dreamworld, lengst til vinstri, minnist fórnarlambanna ásamt starfsfólki sínu. AFP

Tæknileg vandamál

Ástralska verkalýðssambandið segist hafa komið á framfæri áhyggjum vegna öryggismála í Dreamworld og viðhalds sumra tækjanna á síðasta ári.

Samkvæmt blaðinu The Sydney Morning Herald bilaði Thunder River Rapids tvívegis á þremur dögum nýverið. Blaðið The Australian greindi frá því að tæknileg vandamál hafi komið upp nokkrum klukkustundum fyrir slysið á þriðjudag.

Lögreglan í Queensland fer með rannsókn málsins.
Lögreglan í Queensland fer með rannsókn málsins. AFP

Fyrstu sem deyja í 35 ár

Í yfirlýsingu sagði Dreamworld að öryggismál væru í forgangi hjá fyrirtækinu og að Thunder River Rapids hafi staðist árlega tækniskoðun 29. september síðastliðinn.

„Dreamworld vill fullvissa almenning og gesti garðsins um að þegar slysið varð þá hafði fyrirtækið uppfyllt allar öryggisreglugerðir,“ sagði í yfirlýsingunni.

Þar kom einnig fram að síðan garðurinn opnaði árið 1981 hafi enginn dáið í honum fyrr en í þessari viku. Alls hafa 30 milljónir gesta heimsótt garðinn frá upphafi en hann er sá stærsti í Ástralíu.

Lögreglan rannsakar hvað fór úrskeiðis og mun leggja fram kæru ef í ljós kemur að garðurinn hafi verið uppvís að glæpsamlegri vanrækslu.

AFP

Ekkert samband við ættingja

Yfirmaður fyrirtækisins Ardent Leisure, sem rekur Dreamworld, viðurkenndi í morgun að fyrirtækið hefði ekki haft samband við ættingja þeirra sem fórust í slysinu og sagði: „Við vitum ekki hvernig á að ná í þá“. Ættingjarnir eru sagðir mjög ósáttir við að hafa ekkert heyrt frá Ardent Leisure eða Dreamworld. 

„Fyrir hönd starfsliðs okkar og stjórnendum hjá Ardent og Dreamworld þá er hugur okkar hjá ykkur og fjölskyldum ykkar á þessum erfiðu tímum,“ bætti hún við.

Opna átti skemmtigarðinn á nýjan leik eftir slysið á morgun en hætt var við það að ósk lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert