Stofna stærsta sjávarverndarsvæði í heimi

Adelie-mörgæs stekkur upp á hafís í Rosshafi við Suðurskautslandið.
Adelie-mörgæs stekkur upp á hafís í Rosshafi við Suðurskautslandið. AFP

Fulltrúar Evrópusambandsins og 24 annarra ríkja skrifuðu í dag undir tímamótasamkomulag um stofnun stærsta sjávarverndarsvæðis heims í Ross-hafi við Suðurskautslandið. Bannað verður að veiða á hafsvæði sem er á stærð við Frakkland og Spán samanlögð.

Verndarsvæðið verður 1,5 milljón ferkílómetrar að stærð en svæðið þar sem veiðar eru bannaðar verður 1,1 milljón ferkílómetri. Gert er ráð fyrir að verndunin renni út eftir 35 ár. Samkomulagið náðist eftir tveggja vikna viðræður þjóðanna á ársþingi alþjóðlegs ráðs um verndun sjávarlífs við Suðurskautslandið. Viðræður um verndarsvæðið hafa þó staðið mun lengur en það hefur verið til umræðu í fimm ár.

Verndarsvæðið verður það fyrsta á alþjóðlegu hafsvæði og er talið fordæmi um hvernig ríki heims ætla að ná tillögu Alþjóðanáttúruverndarsambandsins (IUCU) um að þriðjungur úthafanna verði verndaður.

Hrefna svamlar um í Rosshafi sem mun njóta verndar samkvæmt …
Hrefna svamlar um í Rosshafi sem mun njóta verndar samkvæmt alþjóðlegu samkomulagi. AFP

Sérstaklega hefur verið þrýst á um verndun hafsins við Suðurskautslandið vegna mikilvægis Suður-Íshafsins fyrir náttúruauðlindir jarðar. Vísindamenn hafa áætlað að um þriðjungur næringarefna sem standa undir lífi í öðrum höfum jarðar verði til í Suður-Íshafi. Þar búa einnig flestar mörgæsir og hvalir jarðar.

Ross-hafið er djúpur fjörður þar sem Suður-Íshafið gengur inn í Suðurskautslandið. Margir vísindamenn telja fjörðinn síðasta óraskaða sjávarvistkerfi jarðar. Það sé kjörsvæði til að rannsaka líf á suðurskautinu og hvernig loftslagsbreytingar hafa áhrif á jörðina.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert