Tóku 232 íbúa af lífi

AFP

Vígamenn Ríkis íslams hafa tekið að minnsta kosti 232 af lífi í Mosúl og nágrenni það sem af er viku, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. 

Her Íraks og hersveitir Kúrda hófu sókn í átt að Mosúl í vikunni sem leið og talið er að átökin um borgina standi í nokkrar vikur, eða jafnvel mánuðum saman. Um 1,5 milljónir manna eru í Mosúl og embættismenn Sameinuðu þjóðanna telja að allt að 200.000 þeirra flýi frá borginni á næstu vikum.

„Á miðvikudag voru 232 almennir borgarar skotnir til bana. Af þeim voru 190 fyrrverandi sérsveitarmenn íraska hersins,“ segir talsmaður mannréttindamála SÞ, Ravina Shamdasani, við fréttamenn í Genf í morgun.

Hún segir að þetta hafi fengist staðfest með jafn óyggjandi hætti og mögulegt er en segir að það geti verið að mun fleiri hafi verið teknir af lífi en þetta á síðustu dögum.

Shamdasani segir að aftökurnar fari fram á sama tíma og Ríki íslams sé að þvinga íbúa þorpa í nágrenni borgarinnar til þess að koma inn í borgina, helsta vígi þeirra í Írak. Ætlunin sé  að nota fólk sem mannlega skildi í baráttunni við íraska hermenn.

„Ríki íslams hefur neytt tugi þúsunda manna til þess að yfirgefa heimili sín í nokkrum héruðum í nágrenni Mosúl.“ segir Shamdasani. Meðal þeirra sem hafa verið teknir af lífi eru þeir sem hafa neitað að yfirgefa heimili sín og eða þeir sem hafa áður starfað á vegum hins opinbera.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert