Kærir hópnauðgun á Indlandi

Frá Nýju-Delí á Indlandi.
Frá Nýju-Delí á Indlandi. AFP

Bandarísk kona segist hafa orðið fyrir hópnauðgun á hóteli í Nýju-Delí, höfuðborg Indlands, er hún var þar í heimsókn fyrr á þessu ári. Lögreglan í borginni hóf rannsókn á málinu í gær eftir að konan, sem er stödd í Bandaríkjunum, lagði fram kæru.

Konan hafði fyrst samband við lögregluna í gegnum tölvupóst með aðstoð bandarískra samtaka. Núna hefur konan haft beint samband við lögregluna, samkvæmt yfirmanni lögreglunnar, Mukesh Meena.

Sushma Swaraj, utanríkisráðherra Indlands, hvatti lögregluna til að hafa hendur í hári hinna seku eftir að fluttar voru fréttir af málinu í þarlendum fjölmiðlum.

„Ég hef einnig beðið sendiherra Indlands í Bandaríkjunum um að hafa samband við fórnarlambið og telja henni trú um að hinum seku verður refsað.“

Samkvæmt indverskum fjölmiðlum ferðaðist konan til Indlands í apríl en fór heim fyrr en áætlað var eftir hinn meinta glæp.

Konan segir að leiðsögumaður hennar, sem hafði aðgang að herberginu hennar, hafi byrlað henni ólyfjan í vatnsflösku og nauðgað henni ásamt fjórum vitorðsmönnum sínum í herberginu.

Rannsókn stendur yfir á málinu og meðal annars er verið að skoða öryggismyndavélar frá hótelinu.

Kynferðisárásir á ferðamenn í Indlandi eru tíðar og hafa mörg vestræn ríki varað við þeim. 35 ára japönskum ferðamanni var nauðgað í suðurhluta Indlands í síðasta mánuði.

Á síðasta ári var japanskri konu nauðgað og henni byrluð ólyfjan af leiðsögumanni í borginni Jaipur, innan við mánuði eftir að sex menn hópnauðguðu 22 ára japönskum ferðamanni í borginni Kolkata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert