Standa fyrir herferð gegn „ó-íslamskri“ hegðun

Götumynd frá Íran. Lög kveða á um að íranskar konur …
Götumynd frá Íran. Lög kveða á um að íranskar konur verða að bera höfuðklúta á almannafæri. AFP

Tólf starfsmenn í íranska tískuiðnaðinum hafa verið fangelsaðir fyrir að „breiða út vændi“ með birtingu tískumynda á netinu.

Fréttavefur BBC segir átta konur og fjóra karla hafa hlotið á dóma sem eru allt frá fimm mánaða langir og upp í sex ára fangavist.

Dómstól í Shiraz bannaði fólkinu enn fremur að starfa innan tískuiðnaðarins eða að ferðast út fyrir landsteinana í tvö ár eftir að það hefur afplánað dóm sinn, að því er Ilna-fréttastofan hefur eftir lögfræðinginum Mahmoud Taravat.

Taravat sagði skjólstæðinga sína hafna ásökununum og að þeir hygðust áfrýja dóminum.  Tólfmenningarnir hlutu dóm fyrir að breiða út vændi með birtingu klámfenginna mynda á netinu, sem hvettu til spillingar múslima með sýningu tískusýningar og með því að deila „nektarhugmyndum Vesturlanda“.

Taravat gaf ekki upp nöfn skjólstæðinga sinna, en hann sagði að í þeirra hópi væri karlmaður sem hlotið hefði sex ára dóm og verið bannað að starfa sem blaðamaður eða í hinum opinbera geira í tvö ár eftir að hann verður látinn laus. Þá hafi kona og karl verið dæmd til fimm ára fangelsisvistar og þeim bannað að vinna við fatahönnun og loks hafi karl verið dæmdur í tveggja ára fangelsi og honum bannað að starfa sem ljósmyndari.

Dómstólar Írans standa nú fyrir herferð gegn „ó-íslamskri“ hegðun tískufyrirsæta fyrr á þessu ári.

Í maí tilkynnti saksóknari í Tehran að átta manns hefðu verið handtekin fyrir að birta myndir af konum án höfuðslæðu á samfélagsmiðlum, en írönsk lög kveða á um að allar konur verði að hylja hár sitt á almannafæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert