52 látnir eftir jarðskjálftann á Súmötru

52 manns hið minnsta fór­ust og hundruð slösuðust er öfl­ug­ur jarðskjálfti skók norður­hluta eyj­ar­inn­ar Súmötru í Indó­nes­íu seint í gær­kvöldi. Skjálft­inn átti upp­tök sín í Aceh-héraði, þar sem hundruð bygginga hrundu til grunna. Yfirvöld hafa varað við því að tala látinna eigi líklega eftir að hækka enn frekar.

Jarðskjálftinn, sem mældist 6,5 stig, varð á litlu dýpi í Pidie Jaya-sýslu í Aceh-héraði, hann reið yfir snemma morg­uns að staðar­tíma, þegar íbú­ar sem eru flestir múslimar, voru á leið til morg­un­bæna.

Frétt mbl.is: 25 fórust í jarðskjálfta á Súmötru

AFP-fréttastofan greinir frá því að tala látinna haldi áfram að hækka eftir því sem björgunarsveitir ná að grafa sig í gegnum rústir fleiri húsa. Í sumum tilfellum nýta björgunarmenn handaflið eitt til að ná upp fólki sem er grafið undir rústunum.

Sutopo Purwo Nugroho, talsmaður almannavarna í Aceh, segir staðfest að 52 hafi farist og að minnsta kosti 270 séu slasaðir, þar af séu tugir manna alvarlega slasaðir.

„Við búumst við að þessar tölur eigi eftir að hækka frekar þegar horft er til þeirrar miklu eyðileggingar sem hefur orðið,“ sagði Nugroho.

Fréttaritari AFP á vettvangi sagði íbúa nú ráfa dasaða um milli braks og rústa á götum bæja og borga, þar sem þeir þori ekki heim til sín vegna hættunnar á eftirskjálftum.

Meureudu er einn þeirra bæja sem urðu illa úti í skjálftanum. Þar þustu óttaslegnir íbúar út á göturnar þegar heimili þeirra tóku að svigna og gefa sig undan afli skjálftans. Moskur hrundu til grunna og verslanir féllu saman með þeim afleiðingum að íbúðir á efri hæðum hrundu.

Einn íbúanna, Hasbi Jaya, horfði með hryllingi á það þegar tvö barna hans festust undir rústunum af heimili fjölskyldunnar. Hann dró þau meðvitundarlaus úr rústunum og flýtti sér með þau á næsta sjúkrahús. „Það var allt ónýtt,“ sagði hann við AFP. „Það var kolniðamyrkur af því að rafmagnið fór og þegar ég horfði í kringum mig sá ég að hús allra nágranna minna voru jöfnuð við jörðu.“

Sjúkrahúsið í Pidie Jaya er nú yfirfullt og hefur verið gripið til þess ráðs að meðhöndla fólk á grasflötinni fyrir utan spítalann. Þá hafa einhverjir sjúklingar einnig verið sendir á sjúkrahús í nágrannasveitarfélögum, þar sem aðstæður eru betri.

Said Abdullah, yfirmaður heilbrigðismála í sýslunni, sagði um 200 hafa leitað sér aðstoðar á sjúkrahúsinu eftir skjálftann. „Við höfum verið að meðhöndla fólk úti. Við fluttum sjúkrahúsrúm út af því að enginn þorir að fara inn á spítalann,“ sagði hann.

Hjálparstofnanir reyna nú að koma hjálpargögnum til þeirra sem hafa misst heimili sín, en verslanir í sýslunni eru ýmist lokaðar eða hafa verið jafnaðar við jörðu.

„Fólk getur ekki keypt mestu nauðsynjar á borð við mat og vatn,“ sagði Puteh Manaf yfirmaður neyðaraðstoðar á staðnum, og bætti við að komið hefði verið upp eldunaraðstöðu á þeim stöðum sem verst urðu úti.

Sjálfboðaliðar indverska Rauða krossins flytja fórnarlömb skjálftans á héraðssjúkrahúsið í …
Sjálfboðaliðar indverska Rauða krossins flytja fórnarlömb skjálftans á héraðssjúkrahúsið í Pidie Jaya. Staðfest er að að 52 hið minnsta hafi farist í skjálftanum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert