Jólasveinn sagði barni að fara í megrun

Jólasveinar eru líklega misjafnir eins og þeir eru margir.
Jólasveinar eru líklega misjafnir eins og þeir eru margir. AFP

Jólasveinninn er ekki beinlínis þekktur fyrir að vera grannur og spengilegur en hann lét það þó ekki stoppa sig í því að skammast í níu ára dreng fyrir ofþyngd hans.

Drengurinn hafði tyllt sér í fang jólasveinsins í verslunarmiðstöð í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Sveinki gerði sér þá lítið fyrir og ákvað að veita drengnum megrunarráð. Ráðlagði hann honum m.a. að hætta að borða hamborgara og franskar kartöflur.

Í frétt Fox News um málið segir að drengurinn hafi orðið miður sín og gengið í burtu með tárin í augunum. Í samtali við útvarpsstöð sagðist strákurinn hafa tekið ráðleggingar sveinka mjög nærri sér. „Eins og mamma segir, maður á ekki að koma illa fram við níu ára börn,“ sagði sá stutti.

Drengurinn hafði fengið mynd af sér og jólasveininum að gjöf en hana hefur hann nú rifið.

Jólasveinninn hefur hins vegar séð að sér eftir að fjölskyldan kvartaði undan hegðun hans við þá sem reka verslunarmiðstöðina. 

Drengurinn segist þó taka afsökunarbeiðninni með fyrirvara. Hann segist ekki viss um að jólasveinninn hafi verið einlægur í það skiptið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert