Gaf hringana og fann ástina

Konan setti hringana sína ofan í fötu Hjálpræðishersins. Þá fóru …
Konan setti hringana sína ofan í fötu Hjálpræðishersins. Þá fóru hjólin heldur betur að snúast. Af heimasíðu Hjálpræðishersins

Fyrir tveimur árum vafði kona blaði með handskrifuðum skilaboðum utan um trúlofunar- og giftingarhringana sína og setti þá í söfnunarfötu Hjálpræðishersins í Boston. Hún vonaði að gjöfin myndi verða til  þess að hægt yrði að gleðja einhver börn. Gaf hún hringana í minningu eiginmanns síns sem hafði dáið nokkrum árum áður. 

Á þeirri stundu gat þessi kona ekki ímyndað sér að gjöfin myndi verða til þess að framlög til Hjálpræðishersins stórjukust og að fleiri myndu taka upp þann sið að gefa hringana sína og aðra skartgripi í söfnunarfötur mannúðarsamtakanna. Þá gat hana ekki órað fyrir því að innan skamms myndi hún finna ástina að nýju.

Í frétt Boston Herald er þessi fallega saga sögð og enn einn skemmtilegur angi af henni því í síðustu viku gaf kona silfurarmbönd í söfnunarfötu í borginni. Talsmaður Hjálpræðishersins kveikti á perunni og áttaði sig á því að þarna var sama konan komin aftur. Hún hafði jú aftur skilið eftir handskrifað bréf með gjöfinni. Í þetta sinn hafði hún skrifað ljóð.

Hann hafði samband við hana og spurði: „Gerðir þú þetta aftur?“ Konan vill ekki láta nafn síns getið en hafði gaman af því að starfsmaður Hjálpræðishersins hefði áttað sig á því að gjöfin væri frá henni.

Gjafmildur eiginmaður

Konan hafði sjálf starfað sem sjálfboðaliði hjá Hjálpræðishernum í mörg ár og m.a. haft það hlutverk að safna fé handa fátækum fyrir jólin. Þannig kynntist hún einmitt eiginmanni sínum. Hann kom að henni þar sem hún stóð með söfnunarfötuna dag einn árið 1998. Þau tóku tal saman og fóru svo í gönguferð. Nokkrum árum síðar giftu þau sig. Konan segir að eiginmaðurinn hafi verið einstaklega gjafmildur. Hann hafði líka þann vana að heilsa ókunnugum kurteislega úti á götu. Hann lést árið 2011.

Upphafið að gjöf konunnar fyrir jólin árið 2014 má rekja til þess að hún spurði sjálfboðaliða Hjálpræðishersins á götu úti hvernig jólasöfnunin gengi. Hún fékk þau svör að hún gengi hægt. Þá ákvað hún að gefa hringana sína í minningu eiginmannsins góðhjartaða. 

Trúlofunarhringurinn, sem var með demanti í, var metinn á um 1.850 dollara, rúmar 200 þúsund krónur. Eftir að Hjálpræðisherinn sagði frá gjöfinni og bauð hringana til sölu fóru tilboð að hrúgast inn. Það endaði með því að ekkja nokkur keypti þá báða fyrir 21.000 dollara, rúmlega tvær milljónir króna. Hún ákvað strax að skila þeim til konunnar sem hafði gefið hringana. 

Ekkjurnar leiddar saman

Tveimur dögum síðar leiddi Hjálpræðisherinn svo ekkjurnar tvær saman. Þær föðmuðust og töluðu um eiginmenn sína. 

„Ég hitti hana aðeins í þetta eina skipti en ég mun alltaf minnast hennar,“ segir konan sem átti hringana. „Hún var þakklát fyrir gjöf mína, ég var þakklát fyrir hennar. Ég hélt að ég myndi aldrei sjá þessa hringa aftur.“

Frá því að Hjálpræðisherinn fékk hringa konunnar að gjöf hefur sambærilegum gjöfum til samtakanna fjölgað. Í fyrra fengu samtökin margvíslega skartgripi að gjöf, m.a. Rolex-úr og annan demantshring. Allir þessir munir voru boðnir upp og fé safnað til góðgerðarmála.

Konan gjafmilda er hógvær og segir gjöf sína ekki hafa verið neitt merkilegri en annarra. Hins vegar hafi hringagjöfin leitt gott af sér. „Frá því að ég setti hringana í söfnunarbaukinn hafa aðeins góðir hlutir gerst í mínu lífi. Ég hef meðal annars fundið ástina aftur. Eitthvað sem ég þráði en átti aldrei von á að myndi gerast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert