Svarar spurningum um sjálfskaða

Becca er 22 ára og býr í Bretlandi. Hún segir …
Becca er 22 ára og býr í Bretlandi. Hún segir nauðsynlegt að fræða fólk um sjálfsskaðandi hegðun, orsakir hennar og afleiðingar. Skjáskot/YouTube

22 ára stúlka, sem í sex ár sýndi sjálfsskaðandi hegðun, svarar spurningum um hvernig hún fæst við vandamálið og hvernig hún telji best fyrir foreldra að nálgast börn sín sem hafa skaðað sjálf sig vegna vanlíðanar.

Becci sagði sögu sína í sjónvarpsmynd sem sýnd var á BBC (og sjá má hér að neðan). Í myndinni sagði hún frá viðbrögðum sem hún hefði fengið við örum, m.a. á handleggjum sínum, sem hún fékk við það að skera sig.

 Í kjölfar þáttarins tók hún svo við spurningum frá áhorfendum. Meðal þeirra sem sendu henni spurningar voru foreldrar barna sem höfðu áhyggjur af hegðun þeirra.

„Ég á fimmtán ára dóttur sem er byrjuð að skaða sjálfa sig. Að þínu mati, hvað ætti ég helst að gera til að hjálpa henni?“ spyr móðir.

Becci segir m.a. í svari sínu að umfram allt ætti hún að leggja áherslu á það við dóttur sína að þó að hún geti aldrei sett sig fyllilega í hennar spor muni hún styðja hana til betri heilsu. „Búðu þig undir mörg rifrildi, tár og stundum algjört vonleysi,“ skrifar Becci. „En mundu að með réttum stuðningi, ást og umhyggju, mun þetta taka enda.“

Spurð um hvernig hún sjálf takist á við neikvæð orð í sinn garð segir Becci það enn taka á. „Það sem er gott að hafa í huga er að þeir sem segja neikvæða hluti um þig þekkja ekki söguna þína, þeir vita ekkert um líf þitt og munu líklega aldrei gera það.“

Becci segir að mikil þöggun ríki um sjálfsskaða. Það hafi tekið hana nokkra mánuði að átta sig á því að hún væri veik og þyrfti aðstoð til að ná bata. Samfélagið sé dómhart og breyta þurfi viðhorfum fólks. „Örin þín þurfa ekki að vera merki um veikleika. Þú getur sýnt þau og verið ánægð með þær orrustur sem þú hefur háð og unnið.“

Hér getur þú lesið svör Becciar við spurningum um sjálfsskaða.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert