Funduð sex sundurlimuð lík

Rannsóknardeild lögreglunnar í Chilpancingo leitar sönnunargagna við bílinn þar sem …
Rannsóknardeild lögreglunnar í Chilpancingo leitar sönnunargagna við bílinn þar sem sex afhöfðuð lík fundust. AFP

Mexíkóska lögreglan fann í dag lík sex manna sem höfðu verið hálshöggnir í Guerrero-fylki. Höfuð mannanna fundust í svörtum plastpoka ofan á flutningabíl í höfuðborg fylkisins Chilpancingo, en sundurlimaðir líkamar þeirra voru inni í bílnum, að því er AFP hefur eftir Roberto Alvarez, talsmanni öryggislögreglunnar.

Lík fjögurra manna, sem höfðu verið bundnir á höndum og fótum, og sem sýndu þess merki að hafa sætt pyndingum, fundust þá í nágrannabænum Chilapa.

Talið er að morðin tengist átökum eiturlyfjahringjanna Los Ardillos og Los Jefes, að því er AFP-hefur eftir heimildamanni sem ekki vildi láta nafns síns getið.

Guerrero er eitt af fátækari fylkjum Mexíkó og árið 2015 var morðtíðnin í landinu hvergi hærri, en átaka eiturlyfjahringja um ítök yfir ópíum- og maríjúanamarkaðinum eru oft blóðug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert