Rússar og Tyrkir vinna saman

F-16 orrustuþota tyrkneska flughersins.
F-16 orrustuþota tyrkneska flughersins. Ljósmynd/Tyrkneski flugherinn

Rússneskar og tyrkneskar orrustuþotur gerðu í fyrsta sinn í dag sameiginlegar loftárásir á stöðvar hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í Sýrlandi. Þetta hefur breska ríkisútvarpið BBC eftir rússneska varnamálaráðuneytinu. Skotmarkið var úthverfi bæjarins al-Bab þar sem tyrkneskar hersveitir urðu fyrir miklu mannfalli í desember í átökum við samtökin á jörðu niðri.

Haft er eftir rússneska hershöfðingjanum Sergei Rudskoi að loftárásirnar hafi skilað miklum árangri en al-Bab er um 20 kílómetra frá landamærum Tyrklands að Sýrlandi. Tyrkir hafa unnið að því undanfarna fimm mánuði að hrekja bæði liðsmenn Ríkis íslams og Kúrda af svæðinu. Bandaríkjamenn gerðu loftárásir á svæðinu fyrr í þessari viku í samstarfið við Tyrki.

Níu rússneskar orrustuþotur tóku þátt í loftárásunum í dag að sögn Rudskoi ásamt átta tyrkneskum þotum. Hann sagði að rússnesku þoturnar væru af gerðinni Su-24 og Su-25 og þær tyrknesku F-16 og F-4. Þoturnar hefðu ráðist gegn 36 skotmörkum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert