Búa við hörmulegar og hættulegar aðstæður

Drengur í flóttamannabúðum á landamærum Grikklands og Makedóníu. Amensty Internationl …
Drengur í flóttamannabúðum á landamærum Grikklands og Makedóníu. Amensty Internationl veit um dæmi þess að fólk hafi verið sent frá Grikklandi til Tyrklandi með hraði án þess að fá færi á að sækja um hæli. AFP

Flóttamannasamningur Evrópusambandsins við Tyrkland hefur leitt til þess að þúsundir flóttamanna og farandfólks býr við hörmulegar og hættulegar aðstæður í Grikklandi, að því er segir í tilkynningu frá Amnesty International. Árétta samtökin að nú þegar ár er liðið frá gerð samningsins að önnur ríki taki ekki upp sambærilega samninga.

Samningur Evrópusambandsins við Tyrkland sem miðar að því að hælisleitendur sé sendir til baka til Tyrklands, er sagður byggður á þeirri forsendu að landið sé öruggt fyrir þá hælisleitendur sem þangað eru sendir.

Samtökin segja enga hælisleitendur hafa enn verið hafi senda til Tyrklands á þeim grundvelli. Amnesty International hafi hins vegar skráð tilfelli þar sem hælisleitendur hafa verið sendir til baka í flýti án þess að hafa fengið tækifæri til að sækja um hæli á Grikklandi eða kæra endursendinguna og slíkt brjóti í bága við alþjóðalög. Greint er frá slíkum endursendingum í samantektinni A Blueprint for Despair.

Falskur undirtónn í yfirlýsingum þjóðarleiðtoga

„Samningur Evrópusambandsins við Tyrkland er stórkostlegt áfall fyrir þær þúsundir sem eru strandaglópar á grísku eyjunum í endalausri biðstöðu, í örvæntingu og hættu,“ er haft eftir Gauri van Gulik, framkvæmdastjóra Evróputeymis Amnesty International, í tilkynningunni.

„Það er falskur undirtónn í yfirlýsingum þjóðarleiðtoga Evrópu þegar þeir hampa samningnum og segja hann hafa skilað góðum árangri á meðan þeir loka augunum fyrir þeim óbærilega fórnarkostnaði sem samningurinn hefur leitt af sér með tilliti til þeirra sem þjást vegna hans.“

Geta enn ekki yfirgefið grísku eyjarnar

Þegar samningurinn tók gildi voru allir flóttamenn og hælisleitendur færðir á varðhaldsstöðvar. Þó að strangt varðhaldskerfi sé ekki enn við lýði á Grikklandi þá getur flóttafólkið sem dvelur í flóttamannabúðum ekki yfirgefið grísku eyjarnar. „Afleiðingin er sú að flóttafólk og hælisleitendur er þvingað til að búa við hörmuleg lífsskilyrði svo mánuðum skiptir í yfirfullum flóttamannabúðum, þar sem skortur er á heitu vatni, hreinlæti og næringu, ásamt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.“

Segir í tilkynningu Amnesty að ástandið sé ekki aðeins niðurlægjandi heldur setji það líf og velferð þeirra sem í búðum dvelja í hættu. Bágbornar aðstæður í flóttamannabúðunum, óvissa um framtíðina og slæm samskipti við staðarbúa, hafi ennfremur ýtt undir spennu sem stundum leiði af sér ofbeldi og þá finni konur sérstaklega fyrir skorti á öryggi.

„Enginn ætti að láta lífið í kuldanum við landamæri Evrópu. Þjóðarleiðtogar sem horfa til samnings Evrópusambandsins við Tyrkland sem forskrift að öðrum samningum við lönd eins og Súdan, Líbíu og Nígeríu ættu að skoða þær hrikalegu afleiðingar sem Tyrklands-samningurinn hefur haft og láta það sér að kenningu verða: þetta ætti aldrei að endurtaka,“ sagði van Gulik.

Á meðan að Tyrkland teljist ekki öruggt land eigi Evrópusambandið að vinna með grískum yfirvöldum að því að flytja hælisleitendur upp á meginland Grikklands og ríkisstjórnir Evrópu ættu að gefa hælisleitendum á grísku eyjunum kost á að leita hælis í öðrum ríkjum Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert