Var nauðgað á hverjum degi í mánuð

Konur í flóttamannabúðum í Írak. Vígamenn Ríkis íslams saka oft …
Konur í flóttamannabúðum í Írak. Vígamenn Ríkis íslams saka oft þær konur sem eru íslamstrúar um að hafa gengið af trúnni áður en þeir misnota þær. AFP

Vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams hafa pyntað og nauðgað íröskum konum úr hópi bæði súnni-múslima og jasída, að því er mannréttindasamtökin Human Rights Watch greindu frá í dag.

Samtökin hafa staðfest tilfelli um nauðungarvist, nauðungarhjónabönd og nauðganir á konum sem hafa flúið bæinn Hawijah í Írak, sem er á valdi hryðjuverkasamtakanna.

Hin 26 ára Hanan er í hópi kvenna sem vígamenn samtakanna handsömuðu er þær reyndu að flýja úr bænum. Eiginmaður Hanan var þegar flúinn frá Hawijah og sögðu vígamennirnir að eftir flótta hans hefði hún gengið af trúnni og bæri að giftast einum leiðtoga þeirra.

Þegar hún neitaði var bundið fyrir augu hennar, hún barin með plastsnúrum og henni haldið fastri á meðan henni var nauðgað.

„Það var bundið fyrir augu mín á meðan sami maðurinn nauðgaði mér á hverjum degi næsta mánuð og þetta var alltaf gert fyrir augum barna minna,“ sagði Hanan við Human Rights Watch.

Samtökin segja málið ekki hljóta næga athygli hjá alþjóðasamfélaginu og að of lítið sé gert til að vinna gegn skömminni sem hindri mörg fórnarlambanna í að greina frá.

„Mjög lítið er vitað um kynferðisbrot gegn súnni-konum sem búa á svæðum undir stjórn Ríkis íslams,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Lama Fakih, einum af stjórnendum samtakanna í Mið-Austurlöndum.

„Við vonum að alþjóðasamfélagið og yfirvöld á staðnum muni gera það sem þau geta til að veita þessum hóp fórnarlamba þann stuðning sem hann þarf.“

Talsmenn Ríkis íslams segja hryðjuverkasamtökin fylgja eftir mjög strangri túlkun á súnni-íslamstrú sem iðkuð hafi verið á tímum Múhameðs spámanns.

Vígamenn samtakanna hafa hins vegar réttlætt nauðganir og kynlífsþrælkun kvenna sem tilheyra þjóðarbroti jasída á þeim grundvelli að jasídar séu fjölgyðistrúar og hvorki arabar né múslimar.

Samkvæmt skýrslu Human Rights Watch saka vígamenn hryðjuverksamtakanna hins vegar oft þær konur sem eru íslamstrúar um að hafa gengið af trúnni áður en þeir misnota þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert