Háskólanemi skotinn í mótmælum

Nemendur við Njala-háskólann.
Nemendur við Njala-háskólann. Ljósmynd/Njala-university

Einn háskólanemi lét lífið og nokkrir aðrir særðust þegar til átaka kom milli lögreglu og háskólanema í mótmælum í borginni Bo í Sierra Leo­ne í Afríku. Lögreglan beitti skotvopnum og táragasi eftir að nemendur tóku að eyðileggja háskólabyggingar og nemendagarða. 

Kennarar við Njala-háskólann hafa verið í verkfalli frá því í október, þegar haustönn átti að hefjast. Mótmælin snúast um vangoldin laun og lífeyrisgreiðslur. Þessu hefur verið mótmælt á þremur öðrum stöðum í landinu. 

Lögreglan handtók 35 manns vegna háskólamótmælanna meðal annars í borginni Kenema og í höfuðborginni Freetown. Nokkrir þeirra mættu fyrir rétti á föstudaginn vegna meintra brota sem þeir áttu að hafa framið í mótmælunum. 

Flestir nemendur skólans höfðu þegar greitt skólagjöldin og hafa ekki fengið neina kennslu frá því í október. 

Stjórnvöld hafa hvatt til friðsamlegra mótmæla. Í tilkynningu sem þau sendu frá sér sögðu þau að ef ofbeldi yrði beitt væri tryggt að lögum yrði framfylgt af fullri hörku. 

Þau segja jafnframt að unnið sé að því að leysa deiluna með öllu starfsfólki skólans. Starfsmaður Njala-háskólans sagði í viðtali við AFP að háskólinn hafi ekki getað greitt kennurum laun frá árinu 2015 og ellilífeyri frá árinu 2012.

Stjórnvöld hafa boðað til fundar í deilunni næstkomandi mánudag. Starfsfólk háskólans hefur ekki enn greint frá því hvort það muni mæta á fundinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert