Spá mikilli eyðileggingu

Pálmatrén svigna í vindinum í bænum Ayr.
Pálmatrén svigna í vindinum í bænum Ayr. AFP

Fellibylurinn Debbie gekk á land milli Bowen og Airlie-strönd í Queensland með vindhraða upp á 73 m/s. Þá var styrkur hans 4 en dregið hefur úr honum á leið inn landið og er styrkur fellibylsins nú áætlaður 2, sem samsvarar 43-49 m/s.

Að sögn Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, virðist enginn hafa látið lífið af völdum Debbie enn sem komið er en viðbragðsaðilar eiga enn eftir að meta umfang þeirrar eyðileggingar sem ofsaveðrið hefur valdið.

Turnbull sagði veðrið langt í frá gengið yfir og bað fólk um að halda sig í öruggu skjóli fram á miðvikudag. Herinn er í viðbragðsstöðu og mun flytja hjálpargögn til Queensland, sagði ráðherrann, og þá munu stjórnvöld hvetja tryggingafélög til að sýna þeim samkennd sem verða fyrir tjóni.

Börn að leik í rýmingarmiðstöð.
Börn að leik í rýmingarmiðstöð. AFP

Samkvæmt yfirvöldum kann að vera að heildartjónið af völdum Debbie liggi ekki fyrir fyrr en eftir nokkurn tíma. Ian Stewart, yfirlögreglustjóri Queensland, sagðist eiga von á fregnum af meiðslum, ef ekki dauðsföllum.

Þá sagði ríkisstjórinn Annastacia Palaszczuk að íbúar myndu upplifa sjokk á morgun, þegar þeir yrðu varir eyðileggingarmáttar fellibylsins.

Margir eru án rafmagns og símasambands og hafa 1.500 íbúar Collinsville verið varaðir við að veðrið stefni á þá. Fleiri en 25.000 var sagt að yfirgefa heimili sín áður en Debbie gekk á land.

Íbúi á Whitsunday-eyjum líkti vindhviðunum við umferð lesta úr báðum áttum. Þá sagði maður að nafni Charlie í samtali við Australian Broadcasting Corp. að hristingurinn vegna bylsins væri stöðugur.

Ítarlega frétt er að finna hjá BBC.

Gervihnattamyndir sýna umfang Debbie.
Gervihnattamyndir sýna umfang Debbie. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert