Yfir 50 norsk ungmenni handtekin

Ungir dópsalar og neytendur voru handteknir í Noregi í vikunni.
Ungir dópsalar og neytendur voru handteknir í Noregi í vikunni. AFP

Norska lögreglan hefur handtekið 53 ungmenni, flest á aldrinum 16-20, í aðgerðum sem beinast gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Fólkið var handtekið í skólum og á heimilum sínum í nágrenni höfuðborgarinnar fyrr í vikunni.

Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins eru ungmennin grunuð um eiturlyfjasölu á vegum skipulagðra glæpasamtaka í Ósló.

Um er að ræða viðskipti og neysla eiturlyfja, brottnám, ofbeldi, hótanir og vændi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu en ungmennin eru sökuð um að hafa tekið þátt í starfi glæpasamtakanna.

Lars Abelsen, yfirlögregluþjónn í Øst-umdæmi, segir í samtali við NRK að ábendingar hafi borist frá foreldrum, skólayfirvöldum og fólki sem starfar með ungmennum um að ungmennin tengdust slíkri glæpastarfsemi. Fylgst hefur verið með glæpasamtökunum í um það bil tvö ár til þess að fá yfirsýn yfir starfsemi þeirra. Fólkið var handtekið á þriðjudag og miðvikudag.

Abelsen segir að flest þeirra tengist viðskiptum með kannabis, kókaín, e-töflur og MDMA en einhver þeirra séu grunuð um ofbeldi og hótanir líkt og yfirleitt fylgi fíkniefnaviðskipum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert