Ók yfir Eyrarsundsbrúna á röngum vegarhelmingi

Eyrarsundsbrúin böðuð skini aftansólarinnar. Myndin er tekin frá höfninni í …
Eyrarsundsbrúin böðuð skini aftansólarinnar. Myndin er tekin frá höfninni í Dragør. AFP

Bifreið var ekið yfir Eyrarsundsbrúna á öfugum vegarhelmingi, rúmlega 15 km leið, seint í gærkvöldi áður en lögreglan stöðvaði akstur bifreiðarinnar.

Eyrarsundsbrúnni var lokað um miðnætti í nótt eftir að tilkynnt var að bifreið væri ekið á röngum vegarhelmingi brúarinnar.

Eyrarsundsbrúin er 15,9 km löng og tengir saman Danmörku og Svíþjóð. Svo virðist sem ökumaðurinn hafi ekið á röngum vegarhelmingi allt frá Lernacken-tollahliðinu, Svíþjóðarmegin, yfir brúna og að flugvellinum í Kaupmannahöfn (Kastrup) þar sem danska lögreglan stöðvaði bifreiðina.

Upplýsingafulltrúi Eyrarsundsbrúarinnar, Sanna Holmqvist, segir í viðtali við Sydsvenskan að bifreiðin hafi verið að koma frá Danmörku yfir til Svíþjóðar. Síðan þegar hún var að koma að Lernacken sneri bílstjórinn skyndilega við og ók aftur til baka á röngum vegarhelmingi. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert