Barsmíðar kostuðu barn lífið

AFP

Hafin er rannsókn á andláti 11 ára gamals drengs í Malasíu en vörður í skóla drengsins er talinn bera ábyrgð á dauða hans.

Vörðurinn hafði barið drenginn, Mohamed Thaqif Amin Mohd Gaddafi, með vatnsslöngu. Drengurinn fékk síðar sýkingu í sárin eftir slönguna og þurfti að aflima hann. Drengurinn lést í gær af aukaverkunum. Mikið reiði er í Malasíu vegna málsins en drengurinn var nemandi í einkareknum skóla í íslömskum fræðum. Er þess krafist að eftirlit verði aukið í trúartengdum skólum landsins en drengurinn var einn 15 drengja sem var barinn af verðinum fyrir hávaða í húsnæði skólans 24. mars.

Þegar móðir hans heimsótti hann nokkrum dögum síðar ákvað hún að taka hann úr skólanum þar sem hann virtist veikburða. Þremur vikum síðar var komið með hann á sjúkrahús þar sem fótleggir hans bólgnuðu upp. Við rannsókn kom í ljós að um blóðköggla var að ræða og að drengurinn þjáðist af alvarlegum sýkingum. Ekki þótti annað hægt en að taka báða fætur hans. Í gær átti að fjarlægja hægri handlegg hans en drengurinn lést áður en aðgerðin var gerð.

Fjölmiðlar í Malasíu hafa birt brot út dagbók drengsins og þar lýsir hann kerfisbundnu ofbeldi í skólanum og ef einn nemandi braut af sér var öllum hópnum refsað.

Lögreglan hefur handtekið vörðinn fyrir brot gegn barni en að málið væri nú rannsakað sem morð eftir að Mohamed Thaqif lést. Eins hefur verið greint frá því að vörðurinn hefur áður verið dæmdur í fangelsi fyrir þjófnað.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert