Má biðja einhvern að drepast en ekki skjóta Trump

Starfsmenn Facebook eru að kikna undan álaginu af öllum þeim …
Starfsmenn Facebook eru að kikna undan álaginu af öllum þeim efnisþáttum sem þarf að taka tilltil til varðandi birtingu á samfélagsmiðlinum. AFP

Þeir starfsmenn Facebook sem sjá um að fjarlægja óæskilegt efni af samfélagsmiðlinum fá aðeins nokkrar sekúndur til að ákveða hvort fjarlægja eigi efni eða leyfa birtingu. Þetta kemur fram í umfjöllun dagblaðsins Guardians um málið í dag. Þar er vísað í starfsmannahandbók sem geymir skilgreiningu á því hvernig starfsmenn geti úrskurðað hvort færslur séu of ofbeldisfullar, kynferðislegar, einkennist af of mikilli hatursorðræðu, kynferðisfordómum eða virðist styðja hryðjuverk.

Segir í frétt Guardian að starfsmennirnir séu að kikna undir öllum póstunum og hafi aðeins tíu sekúndur til að ákvarða hvert mál.

Facebook var til umræðu á breska þinginu í síðastu viku og sögðu þingmenn samfélagsmiðilinn þá vera að bregðast við kröfu um að taka á eitruðu innihaldi sumra pósta.

Þurfa að taka á hefndarklámi, mannáti og sjálfsskaða

Samkvæmt frétt Guardian þá þurfa starfsmennirnir að taka á miklu og fjölbreyttu úrvali viðkvæmra efnisþátta, m.a. hatursorðræðu, hefndarklámi, sjálfsskaða, sjálfsvígum, mannáti og ofbeldishótunum.

Þeir starfsmenn sem Guardian ræddi við sögðu reglurnar hins vegar vera mótsagnakenndar og skrýtnar. „Facebook getur ekki haft stjórn á efninu þar inni,“ hefur Guardian eftir einum heimildarmanna sinna. „Til þess hefur miðillinn vaxið of mikið, of hratt.“

Að mati starfsmanna eru það einkum ákvarðanir um það hvort færslur um kynferðislegt efni eigi að fá að vera áfram sem eru ruglingslegar.

Í einu skjalanna sem Guardian hefur undir höndum kemur fram að Facebook fái vikulega rúmlega 6,5 milljónir pósta vegna Facebook-síðna fyrir gervieinstaklinga, þ.e. sem ekki eru raunverulega til.

Dýraníð leyfilegt og einelti og ofbeldi gegn börnum

Meðal þeirra færslna og athugasemda sem starfsmönnum ber að fjarlægja er „það ætti einhver að skjóta Trump“, því að sem þjóðhöfðingi telst hann njóta verndar. Það getur hins vegar verið leyfilegt að veita leiðbeiningar um hvernig eigi að hálsbrjóta einhvern, segja einhverjum að „fara og drepast“, „ég vona að einhver drepi þig“ eða „berjum feitu krakkana“ þar sem það sé ekki raunveruleg hótun.

Ekki þarf heldur að eyða öllum myndböndum sem sýna ofbeldisfullt andlát, þar sem þau geta vakið fólk til vitundar um mikilvæg málefni á borð við geðsjúkdóma. Þá þarf ekki heldur að eyða öllum myndum af ofbeldi eða einelti gegn börnum, á meðan það er ekki kynferðislegt eða sýnir kvalalosta. Eins má deila myndum af dýraníði, en merkja þarf sérstaklega þær myndir sem eru sérstaklega líklegar til að misbjóða fólki.

Heimilt er að deila myndböndum af fóstureyðingu, svo framarlega sem enginn nekt er sýnileg.

Allar myndir af nekt og kynferðislegum athöfnum sem gerðar eru í höndunum eru leyfðar á Facebook, en þær myndir sem eru búnar til með stafrænum hætti eru bannaðar.

Vill ekki refsa þeim sem eru í neyð

Þá heimilar Facebook fólki að streyma tilraunum til sjálfsskaða, þar sem miðillinn „vill ekki ritskoða eða refsa þeim sem eru í neyð“.

Þeir sem hafa 100.000 eða fleiri fylgjendur á samfélagsmiðlinum eru skilgreindir sem almannapersóna og njóta því ekki sömu réttinda og verndar og þeir sem skilgreindir eru sem einstaklingar.

„Ákvarðanir Facebook varðandi það hvað er og hvað er ekki ásættanlegt hafa mikil áhrif á málfrelsi,“ sagði í yfirlýsingu frá Open Rights Group, samtökum um réttindi á stafrænum miðlum. „Þessi leki sýnir hversu erfiðar og flóknar þessar ákvarðanir geta verið.“

Í yfirlýsingu frá Monica Bickert, yfirmanni stefnumótunarmála hjá Facebook, segir að fyrirtækið vinni ötullega að því að gera samfélagsmiðilinn öruggan og tryggja málfrelsi á sama tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert