Vilja skattleggja plaströr

„Plaströr er notað í um tuttugu mínútur og síðan er …
„Plaströr er notað í um tuttugu mínútur og síðan er því hent,“ sagði talsmaður BusinessWaste.

Breskt endurvinnslufyrirtæki hefur krafist þess að skattur verði lagður á plaströr sem eru notuð í drykkjarföngum.

Fyrirtækið, BusienessWaste.co.uk, segir að framleiðendur eigi að nota gömlu papparörin á nýjan leik, sem eyðast í náttúrunni.

Áður hefur verið greint frá því að endurvinnslufyrirtæki telja að vörur frá Pringles og Lucozade Sport séu á meðal þeirra sem erfiðast er að endurvinna. 

„Plaströr er notað í um tuttugu mínútur og síðan er því hent,“ sagði talsmaður BusinessWaste, Mark Hall, í samtali við BBC

„Þar sem endurvinnslustöðvar eru staðsettar nenna flestir barir og veitingastaðir ekki að flokka notuð rör fyrir endurvinnslu vegna þess að það er erfitt og satt besta að segja þá hafa þau verið í munnum ókunnugs fólks,“ sagði hann.

„Þau eru gott dæmi um skaðsemi manna gagnvart umhverfinu og þetta er vandamál sem er auðveldlega hægt að leysa.“

Plaströr í G&T óþarfi

Fyrirtækið leggur til að skattur verði lagður á hvert rör, líkt og gert hefur verið vegna plastpoka en sú skattlagning hefur dregið verulega úr notkun einnota plastpoka.

Einnig er bent á að fullorðnir þurfi í raun og veru ekki plaströr. „Við skulum horfast í augu við staðreyndir, þið eruð ekki átta ára. Aðeins börn þurfa rör með drykknum sínum. Af hverju í ósköpunum þurfið þið rör í ykkar G&T?“ sagði hann. 

Pappírsrör úrelt

Charles Sellers frá fyrirtækinu Inn Suppliers, sem býr til rör fyrir veitingaþjónustu, er mótfallinn hugmyndum BusinessWaste. „Pappírsrör eru úrelt. Þau eru ekki hentug á fagurfræðilegan hátt,“ sagði hann og bætti við að erfitt væri að endurvinna sum þeirra vegna pólýetýlen-plasthúðar sem er á þeim.

BBC greindi í síðustu viku frá þeim fimm vörum sem fara mest fyrir brjóstið á endurvinnslufyrirtækjum vegna þess hve erfitt er að endurvinna þær. Þær eru Pringles, Lucozade Sports, svartir bakkar fyrir kjöt, hreinsibrúsar og pappaöskjur utan um viskíflöskur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert