Myrtu ungling vegna nautakjöts

Wikipedia

Lögreglan á Indlandi hefur handtekið karlmann í kjölfar þess að múgur réðst á 15 ára ungling með þeim afleiðingum að hann var stunginn til bana. Talið er að ástæða þess að drengurinn var myrtur sé ásökun um að hann hefði meðferðis nautakjöt.

Fram kemur í frétt AFP að víða á Indlandi sé glæpsamlegt að eiga kýr og neyta þeirra þar sem flestir eru hindúatrúar og telja kýr heilög dýr. Drengurinn, Junaid Khan, sem sjálfur er múslimi, var að ferðast með járnbrautarlest með þremur bræðrum sínum þegar átökin brutust út en upphaflega snerust deilurnar um sæti í lestarvagninum.

Bræðurnir voru úthrópaðir fyrir að vera múslimar af 15-20 karlmönnum sem drógu upp hnífa og sökuðu Khan um að vera með nautakjöt í farangri sínum. Khan var stunginn til bana í kjölfarið og einn af bræðrum hans særðist á hálsi, bringu og höndum.

Lögreglan hefur staðfest að 35 ára gamall karlmaður hafi verið handtekinn vegna málsins. Bróðir Khans segir múginn hafa haft að engu ítrekaðar fullyrðingar þeirra um að þeir væru ekki með nautakjöt meðferðis. 

Samkvæmt fréttinni gerist það reglulega að múslimar verði fyrir árásum á Indlandi vegna ásakana um að eiga kýr eða neyta nautakjöts. Síðustu tvö ár hafi um tíu múslimar verið myrtir vegna slíkra ásakana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert