Valls yfirgefur sósíalista

Manuel Valls.
Manuel Valls. AFP

Fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, greindi frá því í dag að hann væri að yfirgefa Sósíalistaflokkinn. Heimildir AFP herma að hann ætli að mynda bandalag með flokki forsetans, Republique en Marche, Lýðveldishreyfingunni.

Valls var forsætisráðherra Frakklands 2014-2016 en var síðan hafnað af flokknum þegar hann sóttist eftir því að verða forsetaframbjóðandi hans. Í viðtali við RTL-útvarpsstöðina í morgun sagði Valls að ákveðnum kafla í hans pólitíska lífi væri að ljúka. Hann væri að yfirgefa Sósíalistaflokkinn og flokkurinn væri að yfirgefa hann.

Sósíalistar fengu aðeins 30 þingsæti í kosningunum fyrr í mánuðinum þegar kjósendur refsuðu flokknum fyrir framgöngu hans undanfarin fimm ár. 

Valls vildi fara fram fyrir REM í þingkosningunum en samkomulag náðist um að flokkurinn myndi ekki bjóða fram fulltrúa sinn á móti honum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert