Handtóku 43 fyrir mannrán í spilavíti

Setið við fjárhættuspil í Solaire spilavítinu á Manila á Filippseyjum. …
Setið við fjárhættuspil í Solaire spilavítinu á Manila á Filippseyjum. Konunni var rænt úr spilavítinu og farið með hana á hótel í nágrenninu þar sem henni var misþyrmt. AFP

Lögreglan á Filippseyjum tilkynnti í dag að hún hefði handtekið 43 útlendinga, flesta þeirra Kínverja, fyrir að ræna konu frá Singapúr í einu af spilavítum höfuðborgarinnar Manila, að því er Reuters-fréttastofan greinir frá.

Telur lögregla mennina vera gengi okurlánara sem hafi beint sjónum sínum að einstaklingum sem spila með háar fjárhæðir í spilavítunum. 11 sambærileg mál hafa komið upp á borð filippseysku lögreglunnar frá því 2015 þar sem tveir hópar, sem aðallega eru skipaðir Kínverjum og Singapúrbúum, koma við sögu.

Að þessu sinni var konu rænt úr Solaire-spilavítinu sl. mánudag og farið með hana á hótel í nágrenninu, þar sem henni var misþyrmt og ógnað. Kröfðust ræningjarnir 180.000  dollara fyrir að láta hana lausa, að því er segir í skýrslu frá útlendingastofnun landsins.

Ronald dela Rosa ríkislögreglustjóri segir konunni hafa verið bjargað daginn eftir og að búið sé að kæra tvo Malasíumenn og 41 Kínverja vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert